Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur: 86.761
Miðvikudagur 24. maí 2017 kl. 06:00

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur: 86.761

Fyrir rétt um ári síðan biðlaði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, til allra Íslendinga um að skora á ríkisstjórnina með undirskrift sinni að endurreisa heilbrigðiskerfið á Íslandi með því að veita 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins. Fjölmargir málsmetandi Íslendingar lögðu málefninu lið og 86.761 Íslendingur skrifuðu undir þessa áskorun á ríkisstjórnina. Hlutfall vergrar landsframleiðslu sem rennur til heilbrigðismála á Íslandi er um 8,7% sem er langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Kári vildi meina að með því að hækka þetta hlutfall í 11% væri hægt að reisa heilbrigðiskerfið á Íslandi við, reisa það við úr rjúkandi rústum, rústum sem ekki sér fyrir endann á.  

Undirskriftum var skilað til ráðamanna 30. apríl 2016. Hvað hefur gerst síðan þá? Við fengum nýja ríkisstjórn síðastliðið haust eftir fall fyrri ríkisstjórnar og nýjan heilbrigðisráðherra. Þjónusta við landsbyggðina í heilbrigðismálum hefur verið skert til muna undanfarin ár, þrátt fyrir að Landsspítalinn sé hvergi í stakk búinn til þess að taka við öllum þeim verkefnum sem þar voru unnin. Við fáum fréttir af því daglega að sjúklingar fái ekki þá þjónustu sem þeir þurfa, liggi fárveikir á göngum spítalans, að húsnæði Landsspítala sé að hruni komið, að tækjaskortur sé gríðarlegur og viðeigandi lyf við þeim sjúkdómum sem heilbrigðisstarfsfólk berst við alla daga séu ekki í boði hér á landi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég gæti skrifað langan pistil um heilbrigðiskerfið okkar en flest vitum við hvernig málum er háttað þar. Það sem ég hins vegar átta mig ekki á, er hvað þurfi til til þess að á okkur sé hlustað, að við sem hluthafar Landsspítala og hagsmunaaðilar heilbrigðiskerfisins fáum í hendur skýra aðgerðaráætlun út kjörtímabilið. Hvert er hlutverk heilbrigðisráðherra sem stjórnanda? Eru ráðherraembættin orðin að silkihúfustörfum? Það fer of mikill tími í mál sem skipta ekki höfuðmáli, klippa á borða, halda ræður (sem einhver annar semur) og svo mætti lengi telja. Ég vil sjá skýra stefnu og markvissar aðgerðir, í stað óljósra afleiðinga fjárlega.

Ísland er fyrirtæki með sínar tekjur og gjöld. Vel rekin fyrirtæki þurfa góða stjórnendur, skýra stefnu og skilvirka framkvæmd svo starfsmenn viti hver markmiðin séu og hafi þau tól og tæki til að sinna sínu starfi sem best. Við réðum stjórnendur þjóðarbúsins til vinnu í síðustu kosningum. Það er skortur á skýrri stefnu frá þessum stjórnendum hvert þjóðarbúið er að stefna í þessum stóru og mikilvægu málum. Það bíður 86.761 Íslendingur eftir skýrri stefnu í heilbrigðismálum. Enn fleiri bíða eftir stefnu varðandi okkar staðnaða menntakerfi sem þarfnast endurlífgunar og innviði ferðaþjónustunnar sem ráða engan veginn við álagið.