Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ingu Birnu: Núvitund
Þriðjudagur 22. nóvember 2016 kl. 06:00

Lokaorð Ingu Birnu: Núvitund

Ég ELSKA hugtakið „núvitund“ (e.mindfulness) og er búin að lesa ansi margar bækur sem skrifaðar hafa verið um núvitund síðustu ár og áratugi. Samkvæmt alfræðiorðabókinni Wikipedia þá kemur þetta hugtak upphaflega frá búddisma og snýst um að takast á við tilfinningar sínar með því að veita þeim athygli. Núvitund fjallar að stórum hluta um hina ævafornu iðkun hugleiðslu þar sem maður veitir athygli innri og ytri atburðum sem gerast í núinu. Ennfremur, þá snýst núvitund eða gjörhygli í stuttu máli um að finna meiri frið og ró innra með sér og líða betur í eigin skinni. Til þess að ná því eftirsóknarverða ástandi þarf að leggja af stað í hugræktarferðalag og læra mismunandi aðferðir til að þjálfa hugann og ekki síst, kynnast líkama sínum upp á nýtt.  

Þessi iðkun núvitundar á svo að gera einstaklinga hamingjusamari í eigin sjálfi og hafa jákvæð áhrif á allt frá andlegri líðan yfir í að koma í veg fyrir alls kyns sjúkdóma. Allra meina bót og að sjálfsögðu allt jákvætt um það að segja. En eins jákvætt og þetta hljómar og eflaust einfalt fyrir einhverja þá hefur mér ekki tekist að tileinka mér þessa fallegu hugrækt sem tengist hugtakinu, sama hversu ítarlega ég fer eftir þeirri aðferðarfræði sem stunduð er í núvitund. Alltaf dett ég aftur inn í mitt gamla sjálf, sem er svokölluð framtíðarvitund. Ég er  nokkuð viss um að einhverjir tengi hér þrátt fyrir að ekki hafi verið skrifað mikið um þá vitund.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Núvitundarferðalag mitt byrjaði sem sagt á því að fyrir talsvert mörgum árum las ég bókina hans Eckhart Tolle, „The power of now” og fór í framhaldi að kynna mér þessi fræði betur með áframhaldandi lestri og tileinkun á þeirri aðferðafræði sem stuðst er við. Fór að mæta í jóga og gerði öndunaræfingar á hverjum morgni. Ég stundaði sund af miklu kappi og fór í langa göngutúra. Alveg sama hversu kappsfull ég var í þessari iðkun og kannski af því að ég var svona kappsfull þá tókst mér einhvern veginn aldrei vel til og eftir talsvert margar tilraunir er útskýring mín eftirfarandi:

Við fæðumst öll með ákveðna eiginleika, berum gen foreldra okkar og mótumst af því umhverfi sem við lifum í. Samkvæmt heimildum frá móður minni þá var ég óalandi ungabarn, svaf ekki eins og önnur ungabörn gera. Megnið af æskunni var ég úti um allt og upp um allt, gat helst ekki verið kyrr, dansandi allan daginn og varð að hafa mikið fyrir stafni. Síðan hefur eiginlega ekkert breyst. Í dag þarf ég helst að hafa of mörg járn í eldinum, tek að mér endalaust af verkefnum og kem sjálfri mér oft í þrot. Ég er líka mjög dugleg að skipuleggja framtíðina og má stundum ekki vera að því að njóta líðandi stundar. Samkvæmt núvitundarfræðunum þá væri hægt að álykta að ég væri óhamingjusöm og jafnvel síðri manneskja að ná ekki að tileinka mér núið eins og fræðin segja til um. En þegar betur er að gáð þá er það einmitt að skipuleggja framtíðina og gera plön það sem veitir mér mína lífsfyllingu. Ég er meðvituð um mínar tilfinningar og veit hvað ég vil gera til að fá sem mest út úr lífinu. Ég þarf ekki að afrugla mig í tómarúmi á hverjum degi til að upplifa sterkara sjálf og aukna hamingju. Lífið er núna er oft sagt, en núið getur bara verið mikið skemmtilegra ef maður er búinn að skipuleggja og búa í haginn áður, allavega ekki síðra.

En sjálfsagt er ég bara að reyna að finna leið til að sættast við að geta ekki tileinkað mér núvitund með betri árangri en raun ber vitni, annað útilokar auðvitað ekki hitt og eflaust væri ég sáttari í eigin sjálfi ef ég gæti verið meira á staðnum í núvitund. Eftir þetta ferðalag mitt um fræði núvitundar er ég hins vegar meðvitaðri og reyni að stilla mig af endrum og sinnum. 
En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég kynntist jóga í mínu núvitundarferðalagi og ELSKA það.