Lokaorð Ingu Birnu: 230–220-200-210

Ég ólst upp í póstnúmeri 230, þá Keflavík. Bjó þar til 19 ára aldurs, þaðan sem ég flutti til Reykjavíkur og hóf háskólanám. Síðustu 15 ár eða svo hef ég búið í Kópavogi, þar áður fimm ár í Hafnarfirði, þar sem ég keypti mína fyrstu íbúð. Í þessum skrifuðu orðum er ég svo að endurnýja góð kynni af Garðabæ, en þar bjó ég um skamma hríð fyrir u.þ.b. 20 árum og stend núna í miðjum flutningum þangað. Öll þessi bæjarfélög hafa því verið snertifletir við lífshlaup mitt.

Skrifin mín í dag snúast þó ekkert um flutninga, heldur frekar um dilkadrátt og sleggjudóma. Ég hef nefnilega fengið fáránlega fyndnar og stundum neikvæðar athugasemdir frá fólki þegar umræða um flutninga í Garðabæ ber á góma. Athugasemdir eins og: „Já ok, og ætlarðu kannski að kjósa sjálfstæðisflokkinn líka“ eða „Bíddu, fæddist þú með silfurskeið í munninum eins og allir hinir í Garðabæ?“, og „Jæja, bara verið að flytja í skattaparadísina“. Þessar athugasemdir eru auðvitað í léttum tóni en bera engu að síður þess merki að fólk hefur fordóma gagnvart svo mörgu, meira að segja búsetu. Heilar þjóðir eru stundum dæmdar út frá búsetu, samanber því sem stundum hefur verið slegið fram í gríni að Frakkland sé æðislegt land þegar maður lítur framhjá öllum Frökkunum sem þar búa. Í gamla daga voru meira að segja gefnar út brandarabækur þar sem gert var út á að Hafnfirðingar væru heimskari en aðrir íbúar þessa lands. Þó að þetta séu léttvæg dæmi þá sýnir þetta tilhneigingu okkar til að flokka og draga í dilka svo við getum alhæft um þá hópa. 

Hvernig getum við flokkað fólk eftir því hvar það kýs að búa eða eftir öllum hinum breytunum sem einkenna okkur? „Það eru allir Akureyringar svona“, eða „Hann er úr Grindavík, þeir eru allir hálf skrýtnir“. Ég er orðin frekar þreytt á að horfa á þessar athugasemdir standa andmælalaust, hvort sem er í orðum eða í athugasemdakerfum fréttaveitna. Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga fór ég helst ekki inn á samfélagsmiðla eða aðrar fréttaveitur. Ég fann hvernig um mig læstist einhver ömurleg vanlíðan við að lesa órökstuddar fullyrðingar frá misvel upplýstu eða misvel meinandi fólki. En áður en ég fer að hljóma eins og bitur kerling í predikunarham þá ætla ég að láta þetta duga að sinni. Óska þess bara að við fögnum fjölbreytileikanum fordómalaust, það væri nú frekar dapurt líf ef við værum öll eins.