Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð: Að setjast á skólabekk
Sunnudagur 28. október 2018 kl. 05:00

Lokaorð: Að setjast á skólabekk

Mennt er máttur. Svo lengi lærir sem lifir. Er sammála þessum málsháttum enda hef ég lagt mikið upp úr eigin menntun, endurmenntun og að börnin mín afli sér menntunar. Ég er sest aftur á skólabekk, eða meira svona skóladýnuna í þetta sinn. Á þessum fyrstu vikum í yogakennaranámi mínu hef ég hugsað út í hversu móttækileg við erum fyrir því að læra á mismunandi aldri. Maður heyrir sögur af fólki sem fer „háaldrað“ í nám, til láta drauma sína rætast.  Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég upplifi mig ekki eins móttækilega  að meðtaka námsefnið og síðast þegar ég sat á skólabekk í mínu meistaranámi. 

Ég hef velt fyrir mér hvað sé öðruvísi núna. Af hverju finnst mér erfiðara að hlusta á kennarann og tileinka mér það sem hann er að segja? Þrátt fyrir að yogakennaranám þyki ekki akademískt strembið og margir myndu segja að þetta væri nú meira svona „hobby-nám“, þá upplifi ég að ég eigi erfiðara með að meðtaka efnið á sama hátt og ég gerði þegar ég var yngri. Er aldurinn að gera mig ómóttækilegri? Er ég gamli hundurinn sem ekki er hægt að kenna að sitja eða orðin eins og hertur handavinnupoki og tel mig ekki lengur geta lært af öðrum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til að svara eigin fullyrðingum þá trúi ég því að þær séu báðar rangar. Þegar við erum að alast upp þá erum við að meðtaka og læra af foreldrum, vinum, umhverfi okkar og að sjálfsögðu á okkar skólagöngu. Þegar skólagöngu lýkur þá höldum við áfram að nema frá umhverfi okkar, af verkefnum sem við þurfum að takast á við og bara frá lífinu sjálfu með öllum upp- og niðurtúrum sem lífið hendir í okkur. Með aldrinum kemur þroski og við  erum orðin menntaðri af skólagöngu í skóla lífsins og öðrum skólum. Við lærum því á annan hátt en við gerðum í grunnskóla. Við berum meiri virðingu fyrir eigin skoðunum. Á þessum „háa“ aldri þá hefur lífshlaupið kennt manni svo margt að stundum eigum við það til að efast um að við höfum pláss fyrir fleiri upplýsingar eða önnur viðhorf. Það vill svo til að það er til hugtak yfir allt það sem hver og einn hefur lært í sínu lífshlaupi, „bók lögmálsins“. Við erum öll með okkar bók, bókin sem kenndi okkur að bregðast við, bókin sem kenndi okkur að meðtaka og bara vera manneskjur. Þrátt fyrir nafnið þá hef ég lært að þessi bók er ekki lögmál. Við getum skrifað bókina eins og við viljum á hverjum tíma. Getum lært eins lengi og við lifum og skipt út köflum í bókinni eins og hentar hverju sinni.