Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Lokaorð  Örvars: Að kjósa
Miðvikudagur 19. október 2016 kl. 09:31

Lokaorð Örvars: Að kjósa

Það er óvanalegt að haustinu fylgi kosningar til Alþingis okkar Íslendinga. Það er þó sú skrítna staða sem uppi er núna. Með breyttum tímum fer nú kosningabaráttan að miklu leyti fram á samfélagsmiðlum. Hvort það sé gott eða slæmt skal ósagt látið.

Baráttan er gríðarlega hörð og það lofa allir öllu fögru. Hér á landi kjósum við flokka, við annaðhvort aðhyllumst stefnu hans og málefni, kjósum flokkinn af því við höfum alltaf gert það nú eða þá vegna þess að okkur finnst vera kominn tími á breytingar. Það er hægt að finna gott fólk á lista hjá nánast hverjum einasta flokki en líka algjöra drullusokka. Margir hafa talað fyrir því að gaman væri að geta valið fólk en ekki flokka, því er ég sammála. Ég myndi líka vilja fækka þingmönnum um helming og tvö- eða jafnvel þrefalda laun þeirra, draga okkar hæfasta og besta fólk að borðinu (sagt með fullri virðingu fyrir núverandi þingmönnum). Pólitískt ástand á Íslandi hefur verið undarlegt frá hruni, það eru breyttir tímar og virðing almennings er ekki mikil fyrir Alþingi. Fjöldi þeirra sem eru óákveðnir er mikill en ég vil hvetja fólk til þess að nýta þennan rétt okkar til að kjósa, fyrir honum var haft með blóði, svita og tárum. Hvort sem þú sért harðákveðinn eða þér lítist ekki á neinn flokkanna, finnist þú ekki hafa neinn skýran valkost þá skaltu mæta og kjósa.

Public deli
Public deli

Skila þá frekar auðu. Virða þennan rétt sem forfeður okkar börðust fyrir.

Hvort sem okkur líkar betur eða ver þá er kosið um flokka í þessum kosningum, það eru margir valkostir með ólík sjónarmið. Flokkarnir eru núna á fullu að keppast um atkvæði okkar og á þessum tíma ættu menn að geta vaðið í snittum, kökum, pizzum og mjöð.  

Ég var einu sinni í kjörklefanum að fara að setja x-ið mitt við flokk þann sem ég var búinn að ákveða að kjósa þegar ég hætti snögglega við því flokkurinn sem var fyrir neðan á kjörseðlinum hafði gert afar vel við mig í mat og drykk kvöldið fyrir kosningar. Það var vel þegið fyrir fátækan námsmann á þessum tíma. Þetta rifjaðist snögglega upp fyrir mér í miðri þynnkunni, kvöldið áður hafði verið algjörlega frábært. Ég hafði ekki samvisku í annað en að umbuna flokknum fyrir velvildina og breytti þarna ákvörðun minni inni í kjörklefanum. Nú til dags þarf meira en nokkra bjóra og grillaðan hamborgara til þess að ná í atkvæðið mitt en þarna gerði ég þó hið eina rétta og lét flokkinn dekra við mig fyrir kosningar því þeir gera það sjaldnast eftir þær.

Örvar Kristjánsson.