Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokahóf í gróðurátaki á Langholti í Leiru
Föstudagur 22. júlí 2005 kl. 13:23

Lokahóf í gróðurátaki á Langholti í Leiru

Uppskeruhátíð umgmenna sem unnið hafa við uppgræðslu í Landnámi Ingólfs var haldin í gær við Langholt í Leiru. Ungmenni úr Garði, Reykjanesbæ og Vogum hafa unnið að verkefninu Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) og hafa verið gróðursettar um 10.000 plöntur á sl. þremur árum.
Þegar plönturnar eru gróðursettar eru þær mældar og staðsetning þeirra skráð með GPS-hniti og þannig verður hægt að fylgjast með uppvexti þeirra og halda skrá um það hvernig plöntunum reiðir af. Aðallega er gróðursett birki, en einnig talsvert af víði og reyni.

Á degi umhverfisins þann 25.apríl 2003 var undirritaður samstarfssamningur GFF og allra fimm sveitarfélaganna á Suðurnesjum um uppgræðslu og trjárækt á Suðurnesjum sumarið 2003. Verkefnið var kennt við LAND - NÁM þar sem vilji samningsaðila stóð til þess að tengja uppgræðsluna við fræðslustarf og markvissa gagnaöflun um vöxt og viðgang gróðurs við mismunandi aðstæður á Suðurnesjum. Framkvæmd verkefnisins um sumarið 2003 varð síðan sú að uppgræðslusvæði voru valin í samráði GFF og heimamanna snemma um vorið. Snemma í júni komu vinnuflokkar, frá hverju sveitarfélagi til starfa, í flestum tilfellum nemendur vinnuskóla.

Aðstandendur verkefnisins, Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, voru mjög ánægð með vinnuframlag krakkana og hlakki til að sjá þau aftur að ári.

Starf og markmið
Markmið samtakanna er að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu í Landnámi Ingólfs og styrkja vistkerfi svæðisins með því að koma af stað sjálfbærri gróðurframvindu með þeim náttúrulegu tegundum sem hinum ólíku svæðum eru eiginleg. Samtökin vinna þannig að endurheimt glataðra landgæða og því að skapa vistlegra umhverfi fyrir þann stóra hluta þjóðarinnar sem á svæðinu býr.
Samtökin hyggjast ná markmiðum sínum með því virkja samtakamátt ýmissa aðila sem vilja leggja málefninu lið, svo sem einstaklinga, félög, fyrirtæki, stofnanir, ríki og sveitarfélög. Eitt meginstefnumið samtakanna er að nýta til uppgræðslu á örfoka landi eitthvað af því mikla magni lífrænna efna sem falla til sem úrgangur á starfssvæði samtakanna og koma þessum efnum þannig inn í náttúrulega hringrás.

Fleiri myndir í Víkurfréttum á fimmtudaginn í næstu viku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024