Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Löggan gúffar í sig Surströmming í beinni útsendingu
Þriðjudagur 7. febrúar 2017 kl. 14:20

Löggan gúffar í sig Surströmming í beinni útsendingu

Lögreglumenn á Suðurnesjum verða í beinni útsendingu á fésbókarsíðu lögreglustjórans á Suðurnesjum kl. 18:00 í dag þar sem þeir ætla að taka áskorun sem flestir skorast undan. Lögreglumennirnir ætla að gæða sér á Surströmming sem er sænskur síldarréttur og alls ekki allra að borða hann. 
 
Surströmming hefur fengið að gerjast á tunnum í nokkra mánuði áður en réttinum er pakkað í niðursuðudósir. Þar heldur gerjunin áfram og þegar dósin er opnuð gýs upp óþefur sem hefur fengið marga til að kasta upp.
 
Lögreglumennirnir sem taka áskorunina standa í áheitasöfnun fyrir kyndilhlaup vegna alþjóðavetrarleika Special Olympics 2017. Lögreglumennirnir Daði Þorkelsson og Guðmundur Sigurðsson eru sannir kyndilberar verkefnisins hér á landi.
 
 
Á fésbókarsíður lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að ótrúlegir hlutir séu að gerast „og er það spá okkar að landsmenn hafi ekki hópast svona að skjánum síðan að Lára Ingalls hljóp niður hlíðina og í kotið heima hjá sér eða þegar að Dallas var frumsýnt. Þetta mun slá öll aðsóknarmet og áhorfenda tölur munu verða fram úr björtustu vonum“ og vísa þar til beinu útsendingarinnar sem verður á fésbók lögreglunnar.
 
Hvar verður þú upp úr kl 18:00 í kvöld? Örugglega við tölvuna að fylgjast með Surströmming-veislunni. Ekki missa af þessu.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024