Lögðu blómsveig við minnismerki sjómanna
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ síðasta sunnudag. Sjómannamessur voru haldnar í Útskálakirkju og Hvalsneskirkju þar sem séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Útskálaprestakalli, prédikaði. Á Hvalsnesi aðstoðuðu félagar úr Björgunarsveitinni Sigurvon við að leggja blómsveig að minnisvarða um drukknaða sjómenn. Að Útskálum komu slysavarnakonur úr Unu í Garði um athöfnina. Þá var haldin sjómannamessa í Duus safnahúsum eins og hefð er orðin fyrir. Þar prédikaði séra Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur Keflavíkursóknar. Eftir athöfnina þar var gengið með blómsveig að minnismerki sjómanna.