Mannlíf

Lofthrædd  á Bolafjalli
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 06:01

Lofthrædd á Bolafjalli

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, er mikið jólabarn og byrjar að hlusta á jólalög í laumi í september

Halldóra Fríða Þorvalsdsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, er mikið jólabarn. Jólahefðirnar eru margar hjá fjölskyldunni eins og púsl og rjúpur en Halldóra er svo mikið jólabarn að hún byrjar að hlusta á jólalög í september, í laumi reyndar. Hún segir að árið sem er að líða hafi verið frábært og fjölskyldan hafi verið dugleg að ferðast, á Íslandi og í útlöndum. Halldóra sækir jólaviðburði í Reykjanesbæ og ætlar að njóta aðventunnar í botn.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið 2023 var alveg frábært ár fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég nýtti hvert tækifæri og naut þess að eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum í rólegheitum heima, í bústaðnum okkar í Borgarfirði og á ferðalögum bæði innanlands og í útlöndum. Ég fór víða á þessu ári, t.d. til Ítalíu, Póllands, Tenerife og í alla landshluta Íslands. Það sem stendur helst upp úr er ættarmót sem við fjölskyldan fórum á til Ísafjarðar og keyrðum upp á Bolafjall. Það er lífsreynsla sem ég efast um að ég sækist í að upplifa aftur enda mjög lofthrædd manneskja. Svo erum við svo lánsöm að eiga kæra vini og annað yndislegt samferðafólk sem hafa líka skapað ógleymanlegar minningar með okkur á ýmsum viðburðum á þessu ári. Fyrir það er maður mjög þakklátur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Ég er alveg svakalega mikið jólabarn. Það endurspeglast samt ekki í jólaskrauti eða því að fara hamförum í búðum í jólastressi eða slíku heldur aðallega í jólatónlist, kerta- og jólaljósum og jólaandanum. Fjölskyldan, vinir og samstarfsfólk veit að ég fer að hlusta á jólalög í laumi í síðasta lagi í september en við hjónin höfum gert samkomulag í góðlátlegu gríni varðandi það að ég held opinberlega niðri í mér jólaandanum þar til eiginmaðurinn hefur átt afmæli 19. nóvember. Annars hefur þessi tími þau áhrif á mig að það kemur yfir mig ákveðinn friður og ró og ég nýt mín best með kaffibolla við kertaljós að hlusta á jólalög þó ég sé að vinna.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það er nú yfirleitt rétt eftir 19. nóvember en í síðasta lagi fyrsta sunnudag í aðventu. Mér finnst jólatréð vera stór hluti af aðdraganda jólanna og vil því setja það upp sem fyrst til að leyfa því að njóta sín.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég man ágætlega eftir jólunum þegar ég var að vaxa úr grasi og á margar skemmtilegar jólaminningar með foreldrum mínum og bróður. Ein af dýrmætari minningum sem ég á úr æsku er til dæmis að vakna á morgnana og kíkja á jóladagatalið sem mamma saumaði út handa okkur systkinunum og hengdi pakka á fyrir hvern dag með alls konar glaðningum í. Ég man hvað maður var spenntur að klippa pakkana af litlu hringjunum og sjá hvað leyndist í hverjum þeirra. En ein eftirminnilegasta jólaminningin svona á fullorðinsárum er þegar við Friðrik keyptum lifandi jólatré í fyrstu íbúðina okkar á Heiðarbóli 4 sem við fjárfestum í rétt fyrir jólin 1998. Við ætluðum að skola tréð í baðkarinu en það vildi ekki betur til en svo að blöndunartækin gáfu sig rétt á meðan við litum af þeim og úr þeim kom sjóðandi heitt vatn og hluti trésins varð brúnn. Tréð var að öðru leyti svo fallegt að við ákváðum að reyna að nýta það og snerum brúna hlutanum bara út í horn. Það tók enginn eftir því og sagan hefur lifað skemmtilegu lífi öll þessi ár.

En skemmtilegar jólahefðir?

Þær eru líka margar og ótrúlega dýrmætar. Það eru svona litlir hlutir eins og að hafa kósýkvöld heima þar sem við fjölskyldan kúrum saman í vöðli í sjónvarpssófanum og horfum á þessar klassísku jólamyndir og sú fallega hefð að fara með ljós á leiði látinna ættingja og vina til að heiðra minningu þeirra. Við erum svo alltaf með foreldrum mínum og bróður á aðfangadag og þá er boðið upp á möndluís í eftirrétt sem mamma býr til. Mamma passar nú samt upp á að allir fái litla gjöf en aðalgjöfin er 1000 stykkja jólapúsl frá Waddingtons sem er alltaf eftir heima hjá mér og ég nýt þess að púsla það næstu dagana á eftir. Þessi púslhefð hefur verið í fjölskyldunni í áraraðir og ég á dýrmætar minningar þar sem við pabbi sátum fram eftir nóttu þegar ég var unglingur og púsluðum á meðan við hlustuðum á sígildar plötur. Maður getur hreinlega ekki slitið sig frá þessu. Eins höfum við um margra ára skeið haldið rjúpnaveislu í stórfjölskyldunni minni enda miklir veiðimenn þar á ferð og svo hefur tengdamamma boðið okkur og systrum Friðriks og fjölskyldum í hangikjöt á jóladag. Ég gæti haldið endalaust áfram því það er sennilega í eðli okkar jólabarnanna að eiga fullt af skemmtilegum jólahefðum.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég er nú eiginlega alltaf búin að kaupa jólagjafir mjög snemma eða svona í síðasta lagi hálfum mánuði fyrir jól.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Fyrir utan að hafa fjölskylduna saman og helst snjó þá er það klárlega mandarínur, jólaöl, hamborgarhryggur, jólapúsl, jólalög, kerti og fylltu molarnir frá Nóa Síríus.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Ég myndi segja að það hafi verið saumavélin frá Pfaff sem Friðrik og stelpurnar okkar gáfu mér fyrir mörgum árum. Hún hefur komið sér afskaplega vel og ég var ofboðslega ánægð með að fá hana frá þeim.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Það er svo fyndið hvernig óskalistinn minnkar alltaf og minnkar eftir því sem maður eldist. Það eru eflaust mörg sem tengja við þetta. Mig langar nefnilega ekki í neitt sérstakt í pakka heldur langar mig mest af öllu að njóta jólanna með mínu nánasta fólki og óska þess að næsta ár færi okkur gæfu og góða heilsu eins og við vorum svo heppin að fá að njóta á þessu ári sem er að líða. En ef ég þyrfti að biðja um eitthvað sérstakt þá myndi ég alltaf óska mér samveru eða upplifun með þeim sem myndi gefa mér gjöfina hvort sem það er samtal, spilakvöld, útivera, ferðalag, kvöldverður eða eitthvað annað.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Já það eru svo sannarlega hefðir sem við höldum fast í þó við séum annað hvert ár að heiman. Við erum með hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi og heimagerðan möndluís í eftirrétt. Ég efast um að það kæmu jól ef við myndum breyta þessari hefð.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ég ætla að njóta aðdraganda jólanna hér í Reykjanesbæ. Ég fer á jólasýningu Leikfélags Keflavíkur, sæki jólaanda í Aðventugarðinn, fer á hátíðarsýningu Danskompaní sem yngsta dóttir okkar tekur þátt í og á jólatónleikana hennar í tónlistarskólanum þar sem hún spilar á fiðlu. Svo ætla ég líka að sjá jólasýningu fimleikadeildarinnar. Ég mun þó fyrst og fremst leggja áherslu á að njóta með fjölskyldunni og á sama tíma að hlaða batteríin vel fyrir öll þau spennandi verkefni sem bíða okkar á næsta ári.