Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

LK og Vox Arena: Mamma þín
Fimmtudagur 9. mars 2006 kl. 11:49

LK og Vox Arena: Mamma þín

Leikfélag Keflavíkur í samvinnu við Vox Arena, leikfélag fjölbrautaskóla Suðurnesja, vinna nú saman að nýju verkefni.  Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið: MAMMA ÞÍN verður frumsýnt í Frumleikhúsinu innan skamms. Leikritið er unnið á all sérstakan hátt en það er leikhópurinn sjálfur sem býr til verkið. Að sögn Alexöndru, formanns Vox Arena, skoðar leikritið lífið í Keflavík, á Suðurnesjum og lífið almennt, á ansi sérstæðan hátt. Kjarni efnisins er unninn upp úr viðtölum við fólk, bæði af Suðurnesjum og annars staðar frá en hópurinn tók sér leyfi til að snúa út úr öllum upplýsingum sem það hafði og jafnvel snúa staðreyndunum á hvolf ef svo bar undir.  Tónlistin í verkinu er frumsamin og umræður um útgáfu á geisladiski með lögum úr verkinu standa nú yfir. Stefnt er að frumsýningu föstudaginn 17. mars.

Sigurður Eyberg leikstýrir verkinu en hann segir mikið bullað og grínast og að fátt sé heilagt.

„Hópurinn hefur hefur unnið alveg frábærlega að þessu enda sýningin eftir því. Það er kannski rétt að segja frá því að hópurinn býr til sýninguna sjálfur. Þannig að þegar við hittumst fyrst vorum við ekki með neitt leikrit, bara löngunina til að gera leikrit. Við fórum á stúfana og töluðum við folk og spáðum í hvað það væri að vera til, með sérstöku tilliti til þess hvað það væri að vera til á þessu svæði. Síðan fórum við að leika okkur með þessa hluti sem fólk sagði okkur, sjá hvað virkaði og hvað ekki og hvað okkur fannst fyndið og svona. Þannig unnum við í einhverjar fjórar vikur eða þangað til við vorum komin með fullt af skemmtilegu efni. Úr þessu hefur nú orðið mjög hröð og skemmtileg sýning sem er blanda af senum eða atriðum sem standa sjálfstæð en tengjast lauslega með einhverjum keflvískum eða sam-íslenskum raunveruleika.

Hefur þú leikstýrt áður?

Já, ég hef gert soldið af því og þá sérstaklega þar sem leikhópurinn býr til verkið saman, mér finnst það rosalega skemmtilegt og maður veit aldrei hvað maður endar með í höndunum, sem setur líka ákveðna hættu í þetta allt, sem gerir þetta ennþá meira spennandi.

Ertu lærður leikari/leikstjóri?

Já.

Hvaðan útskrifaðist þú?

Frá skóla í Englandi sem heitir East-15.

Ertu vanur að vinna með spunaverk?

Já, eins og ég segi, síðan ég útskrifaðist þá hef ég langmest unnið þannig.

Hvað geturðu sagt okkur um nafnið á verkinu, hver var hugmyndin að því?

Hugmyndinni var varpað fram alveg í anda allrar vinnunnar, þar sem við köstuðum hugmyndum á milli og grínuðumst. Þegar þessi kom fram var hún gripin á lofti og vakti mikla kátínu. Þegar betur var að gáð kom svo í ljós að þetta nafn lýsir verkinu mjög vel. Þetta er alveg sér-suðurnesískur frasi, hann getur þýtt mjög margt og hægt að nota hann í allavega samhengi. Auk þess sem hver sér hann með sínum augum. Fullkomið! Fyrir þá sem eru jafn fáfróðir og ég var fyrir nokkrum dögum þá er þetta svona útúrsnúningur eins og hafa tíðkast meðal ungmenna hér á Suðurnesjum lengi. Í mína tíð voru einmitt margir skemmtilegir svona frasar í gangi. Allt var t.d. voðalega „fallegt” eða „heppnað,”  sem þýddi þá að það var ekki gott. Og það má segja að verkið sé endalausir útúrsnúningar, svo þetta smellur eins og flís við rass.

Af hverju ættu Suðurnesjamenn að mæta í Frumleikhúsið að sjá þessa sýningu frekar en að fara í bæinn í leikhús?

Gera bæði. Það er eina leiðina til að vita að þessi sýning er betri en svo margt sem er að gerast innfrá.

Ertu með einhverjar skemmtilegar sögur frá æfingarferlinu?

Það var ansi mikið hlegið þegar stungið var uppá þessu nafni. Það þykir bjóða uppá ýmsa möguleika í markaðsetningu. Komdu og sjáðu Mömmu Þína í Frumleikhúsinu o.s.frv.
 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024