Blómlegt starf hjá Leikfélagi Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur er eitt af öflugustu áhugaleikfélögum landsins sem hefur starfað í tugi ára. Í haust ætlar LK að setja upp sýninguna, Fló á skinni, farsa í leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar. Undanfarin ár hefur LK boðið upp á leiklistarnámskeið fyrir áhugasama, þá sem langar að taka þátt í leiksýningum félagsins.
Við tókum tali formann Leikfélags Keflavíkur, Sigurð Smára Hansson og inntum hann eftir haustverkefnum félagsins og fleiru.
Nýir félagar ávallt velkomnir
Leikfélag Keflavíkur er til húsa í Frumleikhúsinu sem er staðsett við Vesturbraut 17 í Reykjanesbæ. Þetta er áhugaleikfélag með fólki, ólærðum leikurum, sem vill taka þátt í leiklist.
„Okkur hefur gengið vel að fá áhugaleikara síðustu ár en við erum alltaf til í að fá fleira fólk, það er aldrei of mikið af leikurum. Leikarar eru heldur ekki þeir einu sem leggja hart að sér fyrir leikfélagið. Það eru einnig áhuga tæknimenn, sviðsmenn, leikmyndasmiðir, búningahönnuðir, make-up og hárgreiðslufólk og ég gæti haldið endalaust áfram. Þú þarft alls ekki að hafa próf upp á vasann til að vera með í tæknideild eða öðru, bara áhuga. Ef þú hefur áhuga á einhverju af þessu sem ég taldi upp, ekki hika við að koma til okkar. Við þurfum alltaf á góðu fólki að halda og tökum vel á móti nýju fólki,“ segir Sigurður Smári sem leikið hefur mörg eftirminnileg hlutverk hjá Leikfélagi Keflavíkur.
Námskeiðahald?
„Við vorum með námskeið um daginn fyrir þá sem langar að taka þátt í haustsýningu LK sem verður hinn stórskemmtilegi farsi Fló á skinni. Leikfélagið er ekki með nein námskeið í gangi eins og er fyrir þá sem eru yngri en 18 ára en nú fer unglingastarfið okkar bráðum að fara í gang. Þá verður boðið upp á spunakvöld og fleira fyrir krakka frá 11 ára aldri. Unglingastarfið er í mínum huga eitt það mikilvægasta sem við bjóðum upp á. Það er svo mikilvægt fyrir Leikfélag Keflavíkur að fá unga og áhugasama krakka inn í félagið, til að halda uppbyggingunni áfram, svo félagið haldi áfram á sömu braut, haldi áfram að verða stærra og betra,“ segir Sigurður Smári sem hlakkar til að byrja aftur eftir sumarfrí.
Frábær aðsókn bæjarbúa og annarra
„Undanfarin ár hjá okkur hafa verið frábær. Á síðustu tveimur árum höfum við slegið öll aðsóknarmet, fengið verðlaun fyrir athyglisverðustu áhugaleiksýninguna sem við sýndum fyrir nánast fullum sal í Þjóðleikhúsinu. Eftir þann sigur finnst mér vera kominn meiri áhugi fólks á Suðurnesjum að mæta til okkar í Frumleikhúsið. Fólk er forvitið að sjá það sem við höfum fram að færa á leiksviði Frumleikhússins. Mikil áhersla er lögð á að setja upp faglegar sýningar sem höfða til flestra og einnig að vera með sanngjarnt miðaverð. Við viljum fá fólk í leikhús.“
Bjart framundan
Sigurður Smári er mjög bjartsýnn á framtíð Leikfélags Keflavíkur. Fólk á öllum aldri hefur áhuga á að taka þátt með félaginu enda gerir leiklist öllum gott. Fólk fær ákveðna útrás í leiklist, feimni minnkar og sjálfstraust eykst. Það er skemmtilegt að taka þátt í leikfélagi.
„Miðað við uppbygginguna sem hefur verið undanfarin ár hjá Leikfélagi Keflavíkur og ef bæjarbúar halda áfram að koma á sýningar hjá okkur, tala ekki um ef ennþá fleiri verða jafnvel enn duglegri að láta sjá sig í Frumleikhúsinu, þá get ég ekki séð annað en að framtíðin verði björt. Við bjóðum einnig upp á skemmtiatriði fyrir allskonar tilefni, árshátíðir, skemmtanir og fleira. Við höfum verið að fara á sumarhátíðir á leikskólum til dæmis. Þannig að ef fólk er að leita að skemmtiatriðum þá er hægt að senda okkur línu og við leysum oftast málið.“
Fló á skinni
Einn vinsælasti farsi allra tíma, Fló á skinni, fer á fjalir Frumleikhússins í haust. Það verður nú gaman. Upplagt er að búa til skemmtilega kvöldstund með því að blanda leikhúsferð í Frumleikhúsið saman við heimsókn á eitt af veitingarhúsum Reykjanesbæjar.
„Nú erum við nýfarin af stað með æfingar fyrir leiksýningu haustsins sem verður farsinn Fló á skinni í leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar. Leikfélag Keflavíkur hefur ekki sett upp farsa í heil sex ár þannig að það er mjög spennandi verkefni framundan sem engin má láta framhjá sér fara. Áhugasamir þátttakendur eru einnig hvattir til að hafa samband ef þeir vilja vera með. Það er alltaf pláss fyrir fleira fólk,“ segir Sigurður Smári og segir okkur að lokum hvers vegna hann sé að taka þátt hjá Leikfélagi Keflavíkur en hann starfar sem trésmiður dags daglega.
„Ástæðan fyrir því að ég er hjá Leikfélagi Keflavíkur er einfaldlega sú að ég get ekki hætt. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, að byrja á nýju verki með nýjum leikstjóra og engin af þeim með sömu hugmyndir eða nálganir á hverju leikverki fyrir sig. Þetta er eins krefjandi og þetta er gaman, það er ekkert sem jafnast á við það að sýna fyrir fullu húsi og sjá fólk fara heim með bros á vör eftir vel heppnaða sýningu.“