Ljósop opnar sýningu í Félagsbíói í dag
„Sjö bananar og þrjár sítrónur“
Ljósop, félag áhugaljósmyndara á Suðurnesjum, opnar í dag sýningu að Túngötu 2, gamla Félagsbíói, þar sem yfirskriftin er: „Sjö bananar og þrjár sítrónur.“
Þar má sjá myndir frá níu félögum úr Ljósopi þar sem yrkisefnið er fjölbreytt, en innan sýningarinnar er einnig lítil lokaður salur þar sem sýndar verða myndir undir þemanu 18+ og segir Kristján Carlsson Gränz, formaður félagins, að hver geti lagt sína túlkun á það. Sýningin stendur til 10. desember og er opin frá kl. 18-22 alla daga.
Í samtali við Víkurfréttir sögðu þeir Kristján og Olgeir Andrésson félagi í Ljósopi, sem hlaut þriðju verðlaun í ljósmyndasamkeppni NFS í sumar, að félagið hafi verið í sífelldum vexti frá stofnun þess í janúar.
„Það er mikil gróska á þessu sviði og nú eru félagarnir hjá okkur orðnir um 40 og fjölgar stöðugt eins og verkefnunum. Þeir eru á öllum aldri og bæði karlar og konur.“
Sýningin sem opnar í dag er þriðja sýningin á vegum Ljósops en áður hafa þeir sýnt í Reykjaneshöllinni og í Svarta Pakkhúsinu. Kristján og Olgeir segja að talsverðar framfarir séu á milli sýninganna bæði hvað varðar gæði og vinnslu sem skilar betri myndum.
„Það skiptir miklu að geta sótt í reynslubankann hjá öðrum ljósmyndurum og fá góð ráð, sérstaklega um það sem á að varast, til að verða betri ljósmyndari,” segir Kristján og bendir á Olgeir félaga sinn sem gott dæmi um það, en hann hefur einungis stundað ljósmyndun í rúmt ár og hefur náð mikilli færni.
Búnaður ljósmyndara spannar allt litrófið í þessum málum, allt frá litlum heimilisvélum upp í Large Format filmuvélar og stafrænar vélar af fullkomnustu gerð. Í húsnæði félagsins í Féalgsbíói hefur einmitt nýlega verið komið upp framköllunarherbergi og eftir áramót er stefnt að því að vera með tilsögn í framköllun. Þar er einnig stúdíó sem er allnokkuð notað og kaffiaðstaða en þeir Kristján og Olgeir kunna Sparisjóðnum í Keflavík miklar þakkir fyrir að leyfa þeim að hafa afnot af húsnæðinu sem sé mikill styrkur fyrir félagið.
Þeir sem vilja kynna sér frekar starfsemi félagsins er bent á heimasíðuna ljosop.blogspot.com en fundir eru líka haldnir annan hvern þriðjudag í húsnæði félagsins. Næsti fundur verður þann 5. desember og er allt áhugafólk um ljósmyndun velkomið.