Ljósmyndasýningin Eitt ár á Suðurnesjum – Leiðsögn og spjall
Listasafn Reykjanesbæjar býður upp á leiðsögn og spjall um sýninguna Eitt ár á Suðurnesjum sunnudaginn 14.október kl. 14.00 í Listasal Duus Safnahúsa. Um er að ræða Ljósanætursýningu safnsins í ár og er hún afrakstur samkeppni sem safnið stóð fyrir árin 2017-18. Þá var öllum Suðurnesjamönnum boðið að senda inn ljósmyndir sem teknar voru eftir ákveðnum reglum. Skilyrðin voru að myndirnar skyldu lýsa daglegu lífi og náttúru á Suðurnesjum á einu ári, nánar tiltekið frá 17.júní 2017 til 17.júní 2018. 60 ljósmyndarar sendu inn 350 ljósmyndir og eru þær allar til sýnis í Listasal Duus Safnahúsa, ýmist útprentaðar eða á skjá.
Sex ljósmyndir sigruðu og fóru í hópinn „Bestu myndirnar“ og þær áttu ljósmyndararnir Guðmundur Magnússon, Ólafur Harðarson, Jón Óskar Hauksson, Haukur Hilmarsson og Hilmar Bragi Bárðarson en 30 aðrar myndir fengu sérstaka viðurkenningu sem góðar ljósmyndir.
Dómnefnd skipuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. Sýningarstjórar voru Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður, Oddgeir Karlsson ljósmyndari og Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar.
Dómnefnd skipuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. Sýningarstjórar voru Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður, Oddgeir Karlsson ljósmyndari og Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar.
Ljósmyndarar og einn sýningarstjóra verða á staðnum og segja frá verkefninu og myndunum. Heitt kaffi verður á könnunni og allir hjartanlega velkomnir.