Ljósmyndasýningar á Ljósanótt
Boðið verður upp á nokkrar ljósmyndasýningar á komandi Ljósanótt, enda ljósmyndun sjaldan verið eins vinsæl og um þessar mundir.
Það hefur verið fastur liður hjá Ljósopi, félagi áhugafólks um ljósmyndun, að halda sýningu á Ljósanótt og verður engin undantekning á því nú. Að þessu sinni verður hún haldin í Kjarna. Mikil gróska og þróun hefur verið í félaginu eins og ljósmyndasýningar þess bera með sér.
Norðurljós á Ljósanótt er heiti sýningar í anddyri Duushúsa en þar sýnir Olgeir Andrésson ljósmyndir af norðurljósum eingöngu. Það er nokkur kúnst að mynda norðurljós en Olgeir hefur náð góðum tökum á tækninni og hefur víða vakið athygli fyrir þessar myndir. Olgeir hefur sýnt verk sýn á einka- og samsýningum bæði hér heima og erlendis. Hann hefur unnið til verðlauna í ljósmyndakeppnum og var m.a. ljósmyndari ársins hjá danska ljósmyndablaðinu Zoom.
Ísviðjar er heiti ljósmyndasýningar sem Iða Brá Vilhjálmsdóttir setur upp að Hafnargötu 29. Þar sýnir hún ljósmyndir af listaverkum náttúrunnar á verkum mannanna - ísmyndanir á mannvirkjum.
Ísland er land þitt er heiti sýningar sem Sambíóin í Keflavík bjóða upp á en þar eru landslags- og náttúruljósmyndir Ellerts Grétarssonar látnar leika mjúklega um hvíta tjaldið undir hljómfalli fallegrar tónlistar eftir Peter Kater. Sýningin tekur 15 mínútur og verður keyrð nokkrum sinnum yfir Ljósanótt.
Þá verður ljósmyndasýning Ellerts, Fés og fígúrur, á Listatorgi BG í Grófinni en myndirnar sýna kynjamyndir í íslenskri náttúru.
---
Mynd: Ein af norðurljósamyndum Olgeirs Andréssonar.