Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósmyndasamkeppnin þar sem allir geta verið með
Fimmtudagur 28. júní 2018 kl. 13:32

Ljósmyndasamkeppnin þar sem allir geta verið með

EITT ÁR Á SUÐURNESJUM — Ljósanætursýningin 2018 — skilafrestur mynda til næsta sunnudags!

Nú eru að verða síðustu forvöð að senda inn ljósmyndir í ljósmyndasamkeppnina „Eitt ár á Suðurnesjum“. Myndir úr keppninni munu prýða veggi Listasafns Reykjanesbæjar á Ljósanætursýningunni 2018.
 
Skilafrestur á ljósmyndum er til sunnudagsins 1. júlí nk.
 
„Það hefur nokkur fjöldi ljósmynda borist en við hvetjum Suðurnesjamenn til að senda okkur fleiri myndir. Það geta allir verið með og við vonum að sem flestir sendi okkur myndir í ljósmyndasamkeppnina en við munu sýna allar myndir sem berast í aðalsýningu Ljósanætur í listasal Duus-húsa,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, ferðamálafulltrúi Reykjanesbæjar. Listasafn Reykjanesbæjar og Norræna húsið í Færeyjum verða í samstarfi með stóra  ljósmyndasýningu á Ljósanótt 2018 í nokkrum sýningarsölum Duus Safnahúsa.
 
Efnt er til ljósmyndasamkeppni meðal almennings á Suðurnesjum vegna sýningarinnar og munu margar myndanna sem berast verða sýndar stórar, útprentaðar á Ljósanótt 2018.
 
Færeyingar leggja til sýninguna „Föroyar i et år“ sem samanstendur af rúmlega 600 ljósmyndum sem íbúar eyjanna tóku og lýsa daglegu lífi þeirra í eitt ár á sama tíma og ljósmyndasýningin „Eitt ár á Suðurnesjum“ verður opnuð í Listasal Duus Safnahúsa.
 
Listasafn Reykjanesbæjar býður öllum þátttöku í Ljósanætursýningu safnsins haustið 2018 „Eitt ár á Suðurnesjum“. Hvað hefur gerst á árinu? Safnaðu saman ljósmyndunum þínum sem teknar voru á Suðurnesjum á tímabilinu 17. júní 2017 til 17. júní 2018.
 
Hver og ein myndanna segir sína sögu af lífi þínu á árinu og saman segja allar innsendar myndir, allra þátttakenda eina góða sögu af daglegu lífi á Suðurnesjum. Hvað gerðist á Suðurnesjum þetta ár? Hvað vorum við að gera? Börnin og gamla fólkið, fólkið og dýrin, hversdagurinn og hátíðarhaldið, pólitíkin og trúarbrögðin, bæjarlífið og náttúran, fjölskyldan og vinnan eða hvað annað sem talist gæti hluti af okkar daglega lífi.
 
Hver og einn þátttakandi má senda inn mest tíu myndir. Þar sem myndirnir eru hugsaðar á sýningu er nauðsynlegt að þær séu í mjög góðri upplausn svo möguleiki sé á að prenta þær út í góðri stærð. Því er æskilegt að myndirnar séu ekki minni en 4 MB en þó er hægt að hlaða inn myndum í öllum stærðum. Skilafrestur er til 1. júlí 2018. Allar innsendar myndir verða sýndar á Ljósanætursýningunni, þær bestu útprentaðar en hinar á skjám.
 
Eigendur þeirra mynda sem verða sýndar útprentaðar fá eintak af þeim til eignar, þá verða fimm bestu myndirnar sem berast, að mati dómnefndar, verðlaunaðar sérstaklega.  
 
Á meðfylgjandi slóð má senda myndir á sýninguna: http://listasafn.reykjanesbaer.is/ljosmyndasamkeppni
(athugið að einungis er hægt að hlaða inn þremur myndum í einu og síðan er hægt að endurtaka leikinn þar til tíu myndum hefur verið hlaðið inn).
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024