Ljósmyndasafn Byggðasafnsins á Garðskaga komið á Sarp
Ljósmyndasafn Byggðasafnsins á Garðskaga er nú opið til skoðunar sarpur.is. Búið að setja inn um 800 ljósmyndir og upplýsingar.
Til vinstri á síðunni eru tveir valgluggar: öll söfn og öll aðföng. Þar er valið Byggðasafnið á Garðskaga og síðan ljósmyndir. Í aðalvalmynd er svo hægt að setja inn efnisorð t.d. Garður, Sandgerði, bíll, verslun eða nafn á einstaklingi o.s.frv. og smella á leita.
Byggðasafnið á Garðskaga leitar til almennings um að fá lánaðar gamlar ljósmyndir til að skanna og skila eða ljósmyndir til varðveislu, myndir sem segja frá lífinu í Garði og Sandgerði hér áður fyrr. Hægt er að hafa samband með tölvupósti [email protected] í skilaboðum á Facebook eða í síma 425 3008.
Byggðasafnið fékk styrk frá Safnaráði fyrir árið 2022 til að skanna og skrá ljósmyndir í varðveislu safnsins inn í Sarp.is. Safnið er afar þakklátt fyrir þann stuðning, segir í tilkynningu.
Sarpur.is er menningarsögulegt gagnasafn sem flest söfn á Íslandi skrá í
þá muni og ljósmyndir sem þau varðveita. Allur almenningur hefur aðgang að Sarpi og getur skoðað fjársjóðina sem þar eru skráðir.