Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Ljósmyndabók Ellerts beint á toppinn
Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 02:00

Ljósmyndabók Ellerts beint á toppinn

Ljósmyndabók Ellerts Grétarssonar, Reykjanesskagi - náttúra og undur, fór beint í fimmta sæti á metsölulista Eymundsson yfir allar bækur. Þá vermir bókin toppsætið á lista yfir fræði- og handbækur.
 
Bókin kom út á föstudag í síðustu viku og rauk út eins og heitar lummur í útgáfuhófi sem haldið var í Pennanum Eymundsson í Keflavík. Þar var höfundur bókarinnar, Ellert Grétarsson, og áritaði gripinn.



Bókin um Reykjanesskaga seldist í bílförmum

Það er óhætt að segja að ný ljósmyndabók Ellerts Grétarssonar, Reykjanesskagi - náttúra og undur, hafi selst í bílförmum þegar hún kom í Pennann Eymundsson í Keflavík sl. föstudag. Ellert bauð til útgáfugleði í bókabúðinni í tilefni af útgáfu bókarinnar sem má segja að hafi verið í vinnslu síðustu tólf ár en Ellert byrjaði að taka myndir í bókina árið 2006.
 
„Í þessari einstöku bók gefur að líta úrval áhrifaríkra ljósmynda af helstu náttúruperlum Reykjanesskagans. Myndirnar tók Ellert á árunum 2006 til 2018 í ótal mörgum gönguferðum um skagann. Óhætt er að segja að bókin veiti nýja sýn á þá stórfenglegu náttúru sem Reykjanesskaginn býr yfir, því auk landslagsins sýna myndirnar þá undursamlegu töfraveröld sem flestum er hulin neðanjarðar í þeim fjölmörgu hraunrásarhellum sem skaginn hefur að geyma. Í bókinni kemur vel í ljós að Reykjanesskaginn býr yfir fjölbreyttri náttúru sem sífellt kemur á óvart,“ segir í bókarkynningu.
 
Ívar Gissurarson, útgefandi bókarinnar, var himinnlifandi með móttökurnar sem bókin fékk í útgáfuhófinu og sagði í samtali við Víkurfréttir að það væri langt síðan bók hafi fengið aðrar eins móttökur á útgáfudegi.
 
„Ellert Grétarsson er einhver besti ljósmyndari sem ég hef kynnst og svo er hann að auki einlægur baráttumaður um friðun íslenskrar náttúru. Bókin hans, Reykjanesskagi - Náttúra og undur, á erindi til allra og á það svo sannarlega skilið að rata í hendur sem allra flestra um næstu jól,“ segir Ívar um kynni sín af Ellerti.
 
Ljósmyndabókin Reykjanesskagi - náttúra og undur verður kynnt nánar í nóvember í Víkurfréttum og í Suðurnesjamagasíni okkar á Hringbraut og vf.is.


Ívar Gissurarson útgefandi og Ellert Grétarsson ljósmyndari og höfundur.



 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024