Ljósmynd Sandgerðings birt á forsíðu vinsæls tímarits
Ljósmynd eftir Sandgerðinginn Önnu Ósk Erlingsdóttur var nýlega birt á forsíðu tímarits sem heitir Papercut. Tímaritið er bandarískt og vinsælt og sérhæfir sig í efni um tækni og listsköpun. Anna Ósk, sem hefur verið að gera góða hluti sem tískuljósmyndari í Gautaborg, segir henni hafi verið bent á að reyna að komast að með sitt efni í þessu blaði. „Þeir hjá blaðinu velja ekki hvað sem er til birtingar og ég var búin að senda þeim nokkrar tökur þar til þeir samþykktu þessa. Ég er auðvitað hæstánægð með það!“ Þá segir hún að einnig verði hún með efni í öðru bandarísku blaði í nóvember sem um þrjár milljónir manna lesi. Það eigi vonandi eftir að koma henni enn meira á framfæri.
Forsíðumynd Önnu Óskar í tímaritinu Papercut. Myndin af Önnu Ósk sjálfri er í eigu hennar.