Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósmóðir í hálfa öld
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 2. september 2023 kl. 08:00

Ljósmóðir í hálfa öld

Tók á móti um 2.500 börnum. Þrír ættliðir í fæðingu. Hestamennska aðaláhugamálið hjá Guðrúnu Guðbjartsdsdóttur en hún er nýhætt sem ljósmóðir í Keflavík eftir hálfrar aldar starf.

Guðrún Guðbjartsdóttir er ekkert endilega nafn sem fólk kveikir á einn, tveir og þrír en þegar betur er að gáð, hefur hún komið við sögu í lífi fjölmargra á beinan og óbeinan hátt, Guðrún er ljósmóðir sem tók á móti um 2500 börnum. Hún tók á móti sínu síðasta barni í júní á þessu ári og er farin að njóta heldri áranna. Hún og maðurinn hennar eru í hestasportinu, þau fengu sér hjólhýsi í fyrra og ætla líka að skoða það sem landið hefur uppá að bjóða þannig en ekki bara á hestbaki.

Guðrún er fædd og uppalin í Reykjavík en fluttist svo til Keflavíkur. „Ég get ekki tengt mig við neitt eitt hverfi í Reykjavík því við bjuggum aldrei lengur en tvö ár á hverjum stað. Um tíma fluttum við svo í sveit en foreldrar mínir voru á leigumarkaðnum og þurftu oft að skipta um húsnæði. Pabbi átti alltaf hesta, var nánast hálfur maður og hálfur hestur og ég tók fljótt ástfóstri við hestana líka. Þegar ég var nítján ára kynntist ég verðandi eiginmanni mínum, Alberti Hinrikssyni á árshátíð Hestamannafélagsins Geysis svo það má segja að hesturinn hafi leitt okkur saman. Tvítug skráði ég mig í Ljósmæðraskólann og útskrifaðist 22 ára árið 1976. Þá hófum við Albert sambúð í Keflavík og ég fékk strax vinnu á Sjúkrahúsinu í Keflavík og vann þar allan minn starfsferil sem ljósmóðir.“

Meiri ábyrgð úti á landi

Ljósmæður úti á landi þurftu að sýna meira sjálfstæði heldur en stöllur þeirra í höfuðborginni. „Á sjúkrahúsum úti á landi voru venjulega ekki fæðingarlæknar og því þurftu ljósmæður að takast á hendur meiri ábyrgð. Ég kunni vel við þetta og vann þannig þar til Konráð Lúðvíksson tók til starfa árið 1984. Fram að því þurfti ljósmóðirin ein að fylgja fæðingunni eftir og ákveða hvort hún gæti farið fram á eðlilegan máta eða hvort grípa þyrfti til inngripa eins og t.d keisaraskurðs. Á þessum tíma tíðkaðist ekki mænudeyfing eða neitt slíkt, konur fengu verkjasprautu í fæðingu ef þær þurftu. Það var mjög gott að fá Konráð, hann varð strax okkar besti vinur og félagi, við kölluðum hann til við fæðingarnar daga og nætur. Hann kenndi okkur margt og hjálpaði okkar að gera deildina okkar að bestu fæðingardeild á landinu fyrir konurnar okkar. Konráð var svo góður í mannlegum samskiptum, gat alltaf leyst öll mál sem upp komu en á þessum tíma voru miklu fleiri fæðingar í Keflavík en því miður var honum sagt upp þegar skurðstofunni í Keflavík var lokað árið 2010. Eftir það fækkaði fæðingum mjög mikið, konum fannst ekki gott að hafa ekki lengur það bakland sem skurðstofa er og færðu sig meira til höfuðborgarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér áður fyrr voru konur að eignast börn yngri og ég tók sérstaklega eftir konum frá Sandgerði og Garði, þær voru ansi margar sem komu þaðan mjög ungar að eignast sín fyrstu börn, oft 17-18 ára gamlar. Út af hverju skal ég ekki segja, kannski voru konurnar einfaldlega búnar að stofna heimili með sínum manni ungar,“ segir Guðrún.

Þrír ættliðir og eftirminnilegar fæðingar

Þar sem Guðrún var lengi í bransanum, hefur hún tekið á móti mjög mörgum börnum. „Þegar ég byrjaði var ég að taka á móti börnum mæðra sem voru á svipuðum aldri og ég, þá voru þær eins og vinkonur en eftir því sem árunum fjölgaði fór mér að líða eins og mamma þeirra og að lokum eins og amma þeirra. Gaman frá því að segja að fyrir ári tók ég á móti þriðja ættliðnum, ég tók á móti „ömmunni“ árið 1977, „pabbanum“ árið 1994 og svo kom drengur í heiminn í fyrra og fullkomnaði þrennuna.

Af u.þ.b. 2500 fæðingum eru sumar eftirminnilegri en aðrar. Því miður er sú eftirminnilegasta fæðing sem endaði með dauða barnsins. Konan var drifin í bráðakeisara og reynt var að endurlífga barnið en því miður tókst það ekki. Þetta tók ofboðslega á mig, á þessum tíma var ekki sjálfsagt að fá áfallahjálp og ég hugsaði mig lengi um hvort ég vildi halda áfram að starfa sem ljósmóðir.

Sem betur fer voru samt vel heppnuðu fæðingarnar miklu fleiri, það er engin ein sem stendur upp úr. Hver fæðing er einstök, svolítið eins og að fara í fallhlífarstökk, þú færð kusk í augað þegar krílið andar og grætur í fangi foreldranna. Líklega eru fæðingarnar frá fyrstu árunum sem ljósmóðir hvað eftirminnilegastar, þá voru konurnar á svipuðum aldri og ég. Það var líka gaman að fá sömu konuna aftur og aftur og svo hef ég líka tekið talsvert á móti börnum innan fjölskyldunnar minnar, t.d. hringdi ein í fjölskyldunni í mig á gamlársdegi og ég var með henni fram á nýársdag þegar barnið fæddist, það var lítið skotið upp hjá mér þau áramótin! Ég man líka eftir því þegar einn pabbinn bankaði upp á um nótt heima, konan hans vildi að ég myndi taka á móti og auðvitað svaraði ég kallinu. Svo hef ég auðvitað tekið á móti nokkrum af ömmubörnunum mínum, það er mjög sérstök tilfinning. Áttunda barnabarnið er væntanlegt á næstunni, ég myndi helst vilja vera með puttana í fæðingunni, við sjáum  nú til með það.“

Kíkt í pakkann

Guðrún kunni betur að meta þegar kyn barnsins kom á óvart. „Ég á 47 ára feril sem ljósmóðir að baki og man tímana tvenna. Hér áður fyrr var ekki hægt að vita kyn barnsins nema þegar konur fóru í legvatnsástungu, þá var hægt að vita kynið en þá var tíðarandinn einhvern veginn öðruvísi. Þá vildu foreldrar ekkert vera að „kíkja í pakkann.“ Sónarinn kemur svo til sögunnar og eftir því sem þeirri tækni fleytti fram, varð auðveldara að sjá kynið og svo bara einhvern veginn breyttist tíðarandinn, þá vildu foreldrar fara að vita kynið fyrirfram. Auðvitað er það alltaf val hvers og eins en ég er gamaldags, mér fannst alltaf skemmtilegra að láta kynið koma á óvart. Ég er ekki frá því að fæðingarnar hafi gengið betur þegar kynið var ekki vitað, þá var eftirvæntingin svo mikil sem hjálpaði til við fæðinguna.

Hvað tekur við núna þegar ég er komin á eftirlaun verður spennandi. Við hjónin erum á kafi í hestamennsku og getum sinnt því ennþá betur núna. Við erum með hestana okkar fyrir austan á sumrin, erum með sumarbústað í Árbæjarhelli og erum með hestana okkarþar. Við tökum þá svo suður yfir veturinn og ríðum út héðan. Við fengum okkur hjólhýsi í fyrra og höfum farið í nokkur þannig ferðalög og höfðum mjög gaman af því og munum pottþétt gera meira af því í framtíðinni,“ sagði Guðrún að lokum.

Er ekki vissara að mæla rétta þyngd og lengd? Kannski 52 cm og 15 merkur?

Guðrún á góðri stundu með nokkrum samstarfskonum sínum á fæðingardeild HSS.

Guðrún með eitt af um tvö þúsund og fimm hundruð börnum sem hún hefur tekið á móti á hálfri öld.

Guðrún var kvödd með blómum á síðasta degi hennar í starfi.

Með tvö í fanginu eftir vel heppnaða fæðingu.

Hestakonan Guðrún kann vel við sig á baki og í návist hrossa.

Fyrir um þrjátíu árum síðan var fæðandi konum boðið að eiga í baði sem var sérstaklega útbúið á hinni vinsælu fæðingardeild á HSS. Hér er Guðrún sjálf komin ofan í.