Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu á laugardag
Næstkomandi laugardag, á Tjarnargötutorgi kl. 17, verða ljósin tendruð á jólatrénu sem vinabær Reykjanesbæjar í Noregi, Kristiansand, hefur fært íbúum bæjarins að gjöf í yfir 50 ár.
Blásarasveit frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur jólalög við tréð áður en athöfnin hefst. Sendiráðsritari frá norska sendiráðinu á Íslandi afhendir tréð og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Guðbrandur Einarsson, veitir því viðtöku. Að venju kemur það í hlut grunnskólanemanda úr 6. bekk að kveikja ljósin á trénu og í ár er það Bergur Leon Bjarnason úr Holtaskóla sem fær það skemmtilega hlutverk.
Þegar ljósin hafa verið kveikt er von á góðum gestum, hinum eldhressu og skemmtilegu Skjóðu og Langleggi sem eru systkini jólasveinanna og eru alltaf í jólaskapi. Skjóðu finnst gaman að segja sögur og hún lumar á alls kyns undarlegum sögum beint úr Grýluhelli. Skjóða og Langleggur stýra loks dansi í kringum jólatréð og jólasveinar koma í heimsókn.
Til að halda hita á mannskapnum verður boðið upp á heitt kakó og piparkökur.