Ljósanótt sett síðdegis í skrúðgarðinum
Ljósanótt í Reykjanesbæ verður sett í 20. sinn kl. 16:30 í dag í skrúðgarðinum við Suðurgötu. „Þar með byrjar stórkostleg menningar- og fjölskylduhátíð með yfir 150 viðburði víðsvegar um bæinn. Þetta væri ekki hægt nema með framkvæmdagleði og metnaði bæjarbúa og okkar tryggu stuðningsaðila sem fjármagna hátíðina að stórum hluta,“ segir í tilkynningu Reykjanesbæjar.
Ljósanótt er fyrst og fremst fjölskylduhátíðin og setningarathöfnin í skrúðgarði gefur þann tón. Hún fer fram síðdegis þegar hefðbundnum vinnu- og skóladegi er lokið. Börnin eru í aðalhlutverki í setningarathöfninni og eru foreldrar hvattir til að fylgja börnum sínum.