Ljósanótt í 15 ár: 2005-2009
Ellý og Vilhjálmur og Flags of our Fathers (Árið 2005)
Minning söngsystkinanna Ellýjar og Vilhjálms Vilhjálmsbarna úr Höfnum á Reykjanesi var heiðruð á Ljósanótt árið 2005. Stjörnuspor með nöfnum þeirra var afhjúpað fyrir framan skemmtistaðinn Rána á Hafnargötunni. Háværar raddir voru um það að kvikmyndastjarnan og leikstjórinn Clint Eastwood myndi mæta en svo var nú ekki en kappinn tók upp myndina Flags of our fathers að stórum hluta í Sandvík í Höfnum. Clint sendi þakkir fyrir samstarfið og skjöldur þessu til minningar var afhjúpaður fyrir framan Sambíóin í Keflavík.
Norðan bál og strengjabrúða (Árið 2006)
Á Ljósanótt 2006 var veðrið með endæmum gott, sultublíða alla helgina og var talað um að forsvarsmenn Ljósanætur hafi náði undraverðum samningum við veðurguðina. Meðal atriða sem vakti sérstaka athygli þetta árið var sýningin Norðan bál vekur upp Ægi, þar sem samspil ljóss og tóna var stórfenglegt. Í atriðinu var notast við risavaxna strengjabrúðu í boði KB-banka. Þetta ár afhjúpaði Guðrún Bjarnadóttir, alheimsfegurðardrottning árið 1963, stjörnuspor með hennar nafni fyrir framan skartgripaverslun Georgs V. Hannah. Hún naut aðstoðar Keflavíkurmærinnar Sifjar Aradóttur, fegurðardrottningar Íslands.
Sparisjóðurinn og Gunnar Eyjólfs (Árið 2007)
Í tilefni 100 ára afmælis Sparisjóðsins í Keflavík hlaut þessi merka stofnun, sem nú heyrir sögunni til, Söguspor Reykjanesbæjar árið 2007. Sama ár var Gunnar Eyjólfsson, einn af sonum Keflavíkur, stórleikari og skátahöfðingi, heiðraður með Stjörnuspori. Var það afhjúpað á æskuslóðum Gunnars á horni Hafnargötu og Klapparstígs í Keflavík.
London calling (Árið 2008)
Á Ljósanótt 2008 var breskur símaklefi afhjúpaður á Lundúnatorgi efst á Hringbraut í Keflavík. Fleiri glæsileg listaverk hafa verið reist víða um bæinn á undanförnum árum.
Styrkur til Skessuhellis í minningu Vilhjálms (Árið 2008)
Peningaframlag úr Minningarsjóði Vilhjálms Ketilssonar var afhent fyrir Ljósanótt 2008 til byggingar á Skessuhelli í Grófinni. Styrkinn átti að nota til að taka á móti skólabörnum í Skessuhellinum en hann var formlega opnaður á Ljósanótt þetta ár.
Vilhjálmur var mikill skólamaður og skólastjóri Myllubakkaskóla í Keflavík. Hann varð bráðkvaddur á Ljósanótt árið 2003. Við afhendingu á styrknum kom fram að Vilhjálmur hafði haft sérstakt dálæti af skessusögum og því hafi verið kærkomið að styrkja verkefnið um Skessuhellinn í Gróf.
Söngur og gleði (Árið 2009)
Söngfólk svæðisins sýndi allar sínar bestu hliðar á hátíðartónleikum í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja á Ljósanótt 2009. Hér má sjá þau Bylgju Dís Gunnarsdóttur og Jóhann Smára Sævarsson í eldlínunni á sviðinu en flutt voru lög og atriði úr söngleikjum og óperum frá ýmsum tímum. Á rokklínunni voru hins vegar þeir Júlíus Guðmundsson sem söng með Bubba Morthens nokkur GCD lög en Rúnar Júll og Bubbi gerðu það gott í þeirri sveit á sínum tíma.