Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósanótt í 15 ár: 2000-2004
Laugardagur 6. september 2014 kl. 09:10

Ljósanótt í 15 ár: 2000-2004

Ljósanótt í Reykjanesbæ fagnar 15 ára afmæli í ár og er búist við nokkrum tugum þúsunda gesta til að njóta gríðarlega veglegrar og fjölbreyttrar dagskrár. Þessi skemmtilega mynd Hilmars Braga Bárðarsonar er frá fyrstu flugeldasýningunni árið 2000. Ekki mikill mannfjöldi neðst á og við Hafnargötuna og á bakkanum þar sem núna er svokölluð strandleið. Á þessum stað hafa nokkrir tugir þúsunda manns verið viðstaddir flugeldasýningar undanfarin ár svo gamla máltækið, mjór er mikils vísir, hefur því átt vel við varðandi Ljósanótt sem nú er ein stærsta bæjarhátíð landsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Upphafið að einhverju stóru (Árið 2000)
Fyrsta Ljósanæturhátíðin heppnaðist mjög vel en var ekki fjölmenn miðað við seinni hátíðir en mjór er mikils vísir. Þetta má sjá á myndinni frá flugeldasýningunni, þar er ekki þéttur mannfjöldi niðri við sjó. Eitthvað var um skemmtiatriði og nokkuð um listsýningar en menning og listir áttu sannarlega eftir að aukast mikið á komandi árum.

Ljósanótt 2001

Ákveðið var að flytja minnismerki sjómanna frá bakgarðinum við Holtaskóla, en þar hafði það staðið frá árinu 1978. Þetta fallega listaverk Ásmundar Sveinssonar fékk nýjan stað við Norðfjörðsgötu, þar sem það hefur verið síðan. Þetta ár sáu um 20.000 manns glæsilega flugeldasýningu sem var hápunktur Ljósanætur. Viðar Oddgeirsson tók saman gömul myndbrot frá sögu bæjarins og sýndi í fyrsta sinn.

Íslendingur lýstur upp á Ljósanótt (Árið 2002)
Víkingaskipið Íslendingur sigldi inn Stakksfjörðinn með tilkomumiklum hætti á þriðju hátíðinni, árið 2002. Það var ljósum prýtt í tilefni Ljósanætur. Hér sést fleyið koma inn að Keflavíkurbergi sem er upplýst. Á hinni myndinni má sjá mikinn mannfjölda neðarlega á Hafnargötunni en þá var hátíðarsviðið á götunni. Veðurblíða var eins og svo oft á Ljósanótt.


Ljósanæturframkvæmdir (Árið 2003)

Forráðamenn Reykjanesbæjar hafa jafnan notað Ljósanótt sem tímamarkmið eða tímaramma varðandi hinar og þessar framkvæmdir. Hér má sjá starfsmenn Nesprýði árið 2003 að helluleggja Hafnargötuna niður við Duus-torfuna. Við Víkurfréttamenn höfum yfirleitt verið á þönum við útgáfuna fyrir hátíðina og því sjaldan verið beinir þátttakendur en árið 2003 héldum við þó ljósmyndasýningu. Sýndum þá myndir úr safni Víkurfrétta. Hér má sjá Pál Ketilsson, ritstjóra og Hilmar Braga Bárðarson, fréttastjóra, með Einar Júlíusson, pottafyrirsætu, á einni myndinni. Ritstjórinn hafði þetta svolítið fjölskyldutengt þetta árið því Hildur Björk dóttir hans var förðuð í ljósanæturlitunum og var fyrirsæta á forsíðu dagskrárblaðs VF.

Gulldrengirnir verðlaunaðir (Árið 2004)

Árið 2004 voru Gulldrengir Keflavíkur heiðraðir með stjörnuspori fyrir framan K-sport á Hafnargötunni í miðbæ Keflavíkur. Þetta voru náttúrulega knattspyrnuhetjur bítlabæjarins sem unnu fjóra Íslandsmeistaratitla á árunum 1964 til 1973. Bæjarstjórnarband Reykjanesbæjar tóku líka lagið með bæjarstjórann Árna Sigfússon í fremstu röð. Meðal laga bandsins var „Framsóknarkonur“ sem spilað var undir áhrifum frá Rolling Stones.

Gullaldarlið Keflavíkur var heiðrað árið 2004.

Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson með Bæjarstjórnarbandinu.