Ljósanótt framundan – fjöldi sýninga opnaðar í dag
Ljósanótt 2010 verður sett kl.11 þegar grunn- og leikskólabörn bæjarins marsera undir taktföstum trommuslætti að Myllubakkaskóla þar sem setningarathöfnin fer fram.
Við setningu þessarar elleftu Ljósanætur munu börnin sleppa 2000 blöðrum til himins eins og venja er. Gítarsveit nemenda Gítar Myllos stjórnar fjöldasöng sem endar á fyrsta ljósalaginu Velkomin á Ljósanótt.
Framundan er fjölbreytt dagskrá sem stendur yfir í fjóra daga eða til sunnudagsins 5. september. Má þar nefna gríðarlegan fjölda myndlistarsýninga, tónlistarveislu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna enda er ljósanótt fyrst og fremst fjölskylduhátíð.
Í dag verða allflestar myndlistarsýningarnar opnaðar og áhætt er að segja að úr nógu er að velja. Í golfsölum HF sýna 20 listamenn fjölbreytta flóru málverka, ljósmynda og pennateikninga og hinum megin í portinu verður handverksfólk með verk sín til sýnis í Svarta Pakkhúsinu.
Vinnustofa og sýningarrými Magdalena Sirrý Design verður opin í Fischershúsi .Magdalena Sirrý sýnir ýmiskonar textílvörur og handverk og listakonan Gegga (Helga Birgirsdóttir) sýnir verk sín.
Í Gallerí átta sýna níu skapandi listakonur verk sín en þar gefur að líta hönnun úr skinni, roði, ull, silki, pappír, járni, gleri, plexígleri og málmi, svo eitthvað sé nefnt.
Í Kjarna Flughótels munu gestir geta notið myndlistar, hönnunar og handverks úr ýmsum áttum en þar verður m.a ljósmyndasýning félaga í ljósmyndaklúbbnum Ljósopi. Einnig munu systurnar Rakel, Lina og Helga Steinþórsdætur sýna myndlist og hönnun svo eitthvað sé nefnt.
Í Duushúsum verður ljósmyndasýning Ellerts Grétarssonar opnuð kl. 18. Þar sýnir Ellert ljósmyndir úr ferðum sínum um undraheima íslenskra skriðjökla, útkulnaðra megineldstöðva og forvitnileg eldvirk svæði. Sýningin ber heitið Eldur og ís.
Við opnunina mun gleðisveitin Breiðbandið koma fram og flytja nokkur lög en þessir bráðhressu húmoristar munu um helgina kynna glænýjan disk. Allir eru velkomnir á opnunina meðan húsrúm leyfir.
Hér er aðeins getið þess helsta sem verður í boði. Flestar sýningarnar verða opnaðar kl. 18 en annars er hægt að sjá nánari tímasetningar og dagskrárliði á vef Ljósanætur, www.ljosanott.is
VFmynd/elg.