Ljósanótt er bjartasta hátíðin
Jenný Þórkatla Magnúsdóttir, fjölskyldufræðingur hjá Sálfræðistofu Suðurnesja, ferðaðist um Vestfirði í fyrsta skipti í sumar og segist dolfallin af náttúrunni og fjöllunum. Í vetur ætlar hún að passa upp á að næra bæði líkama og sál.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Við fjölskyldan fórum á Vestfirði í fyrsta sinn og ferðuðumst um alla firðina. Vorum á Ísafirði í viku og keyrðum þaðan eitthvað á hverjum degi enda nóg að skoða. Eftir Vestfirði skutumst við á Raufarhöfn í heimsókn til góðrar vinkonu. Einnig vorum við á Hvammstanga í nokkra daga en þar bjuggum við í sex ár. Alltaf gott að koma þangað og hitta fólkið sitt þar.
Hvað stóð upp úr?
Vestfirðir, enda vorum við að koma þangað í fyrsta sinn. Við vorum alveg dolfallin yfir náttúrunni í fjöllunum og öllu þessu útsýni sem við upplifðum þar.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Sonur minn er tíu ára ég fékk að fara einn í sund í sumar. Það hefur komið mér á óvart hvað hann og vinir hans eru búnir að vera duglegir að nýta sér þetta. Þeir hafa verið að fara einu sinni upp í fjórum sinnum í sund á dag, þeir hafa varla þornað. Starfsfólkið í Vatnaveröld á hrós skilið fyrir uppeldið á þeim í sumar.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?
Mér finnst landið okkar gríðarlega fallegt og dásamlegt að sjá hvað landslagið er misjafnt eftir landshlutum. En uppáhaldsstaðurinn minn er Garðskagi og Reykjanesið. Á Garðskaga er alltaf hægt að ná sér í orku og endurnæra sig og Reykjanesið hefur allt sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Það verður nóg að gera í vetur og gott að komast í rútínuna aftur. Ég vinn sjálfstætt hjá Sálfræðistofu Suðurnesja og ætla að vera þar. Einnig er ég að vinna í Holtaskóla í nýju verkefni þar sem ég kem til með að vinna með nemendum og fjölskyldum í ýmsum verkefnum, eins og t.d. skólaforðun þar sem samstarf á milli heimilis og skóla er gríðarlega mikilvægt. Síðan er ég að vinna í verkefni sem heitir Bjargráð – fagleg aðstoð við fjölskyldur fanga og vona ég að það haldi áfram næstu árin. Svo að þetta gangi nú allt vel þarf ég að passa upp á að næra líkama og sál með góðri samveru fjölskyldu og vina.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Mér finnst hún frábær enda bjartasta hátíðin.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Ég ætla á heimatónleika á föstudeginum og skoða alls konar sýningar.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Minningar um Ljósanaótt eru eru svo margar. Ein er þegar Harpa systir var með ljósmyndasýningu og svo er það að hitta alla. Þetta er eins og stórt
reunion, fólk jákvætt og glatt.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Það eru fimmtudagskvöldin þegar röltið er tekið með góðum konum á Hafnargötuna og kíkt á sýningar og fleira. Allt skannað svo að hægt sé að fara aftur um helgina og skoða betur. Við gerum líka súpu fyrir laugardaginn þar sem fjölskylda og vinir hafa mætt áður en haldið er niður í bæ á tónleika.