Ljósanætursvíta Þóris á laugardagskvöldið
Ljósanætursvíta í útsetningu Þóris Baldurssonar er eitt af stóru atriðunum á Ljósanótt sem fram fer í Reykjanesbæ um næstu helgi.
Bítlaæðið á Íslandi má að miklu leyti rekja til Keflavíkur í byrjun sjöunda áratugarins. Þá spruttu fram margar hljómsveitir og tónlistarmenn sem áttu eftir að marka djúp spor í tónlistarsöguna. Hljómar, Óðmenn, Trúbrot, Júdas og fleiri hljómsveitir gerðu garðinn frægan á meðan þær störfuðu en það sem mest er um vert er sá tónlistararfur sem lagahöfundar af Suðurnesjum hafa byggt upp.
Á 10 ára afmæli Ljósanæturhátíðarinnar verður boðið upp á tónlistardagskrá á laugardagskvöldið sem unnin er upp úr þessum gnægtabrunni. Nægir þar að nefna lög eftir Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Jóhann G. Jóhannsson, Þóri Baldursson, Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason. Að lokum verður síðan flutt ljósalagið í ár, en það var valið úr safni laga eftir Rúnar Júlíusson og heitir „Ég sá ljósið“. Lögin eru öll í útsetningu Þóris Baldurssonar og mun einvala lið hljóðfæraleikara flytja þau með söngvarana Björgvin Halldórsson, Eirík Hauksson Einar Júlíusson og Ernu Hrönn í broddi fylkingar.
Meðal þeirra laga sem flutt verða má nefna:
Léttur í lundu, Keflavíkurnætur, Don´t try to fool me, Ég vil að þú komir, Ég elska alla, Fyrsti kossinn, Mýrdalssandur, Eina ósk, Ísland er land þitt og Ég sá ljósið eftir Rúnar Júlíusson sem er Ljósalagið í ár.
---
Mynd - Keflvískar hljómsveitir mörkuðu spor í tónlistarsögu landsins. Ein þeirra var Trúbrot.