Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ljóðin verða oft til þegar pappír er fjarri
Bjarney segir starf rithöfundarins stundum einmanalegt.
Laugardagur 12. nóvember 2016 kl. 06:00

Ljóðin verða oft til þegar pappír er fjarri

- Hafði gaman af skrifum í æsku en þorði þó aldrei að hugsa þá hugsun að stefna að því að verða rithöfundur

„Það var góð tilfinning að fá bókina í hendur, næstum því eins og að fá barn í fangið, en bara næstum því og ég hvíslaði að henni: „Velkomin í heiminn, gangi þér vel,“ segir Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur, sem á dögunum sendi frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí. Sonur hennar var þó ekki eins hrifinn af bókinni og kýldi í hana því honum fannst kápan ekki flott. „Þegar maður er búinn að vera með bókina sem tölvuskjal í vinnslu í mörg ár er eins og einum tíma sé lokið og annar byrji þegar bókin kemur loksins út. Það er svo margt sem getur komið upp á að ég treysti því aldrei að handritið nái að verða að bók fyrr en ég fæ hana í hendurnar,“ segir hún.

Sigurlín Bjarney, sem er alltaf kölluð Bjarney, fæddist árið 1975 og ólst upp í Sandgerði og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Henni þótti gaman að skrifa í æsku og enn skemmtilegra að lesa góðar bækur. Hún þorði þó aldrei að hugsa þá hugsun að stefna að því að verða rithöfundur. „Svo gerðist það smám saman að ég fór að sýna öðrum skrifin mín og í kringum 25 ára aldurinn fór ég að skrifa af alvöru og langaði að gefa út bók.“ Nú býr hún ásamt tveimur börnum sínum í Uppsala í Svíþjóð. Þangað fluttu þau síðasta sumar og ætlar hún að stunda nám þar í eitt ár. Hún segir það mikið ævintýri að skipta svona um umhverfi en að þau fjölskyldan hlakki líka mikið til að flytja aftur heim enda oft erfitt að vera svo fjarri fjölskyldu og vinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurð um nám og fyrri störf þá kveðst Bjarney hafa lokið svo mörgum prófgráðum að hún þori varla að segja frá því. „Kannski er maður of forvitinn, ef það er hægt. Síðustu tvö ár hef ég örlítið fengið að kenna skapandi skrif við Háskóla Íslands og finnst það mjög skemmtilegt og held að slík vinna sé eðlilegt framhald af þessu eilífa skólastússi mínu.“ Fyrir mörgum árum lauk hún námi frá Leiðsöguskólanum og segir ákveðið öryggi fólgið í því að hafa þann bakgrunn og geta alltaf stokkið upp í rútu með forvitna ferðamenn. Þá vann hún í mörg ár á Einkaleyfastofunni og líka í STEFi og þekkir því vel skráningar og skrifstofustörf. Ljóðabókin sem kom út á dögunum er sú sjötta sem Bjarney sendir frá sér. Sú fyrsta var Fjallvegir í Reykjavík sem kom út árið 2007, Svuntustrengur kom út árið 2009 og Bjarg árið 2013. Í fyrra kom út bókin Jarðvist, sem er nóvella og ljóðabókin Ég erfði dimman skóg sem Bjarney skrifaði með sjö konum. „Þar settum við saman ljóð út frá arfinum okkar og hvaðan við komum. Í bókinni kemur hvergi fram hver okkar á hvaða ljóð og í raun er það leyndarmál. Þetta var ótrúlega skemmtilegt ferli og þarna varð til góður vinskapur.“


Efniviðurinn bæði úr eigin reynslu og annarra
Efnivið nýju ljóðabókarinnar sótti Bjarney bæði í sína eigin reynslu og annarra. Hann er bæði 300 ára gamall og nýr og efnið tengist með yfirfærslum og speglunum. „Stundum hlusta ég eftir því sem aðrir segja og svo framvegis og fæ þar hugmyndir sem ég nota og breyti. Annars er voðalega erfitt að ætla að útskýra ljóð, þau verða að fá að tala sínu máli sjálf. Þarna er að minnsta kosti eitt fótboltaljóð og nokkur ljóð sem tengjast hannyrðum og prjónaskap. Ein vinkona mín sagði að í þessari bók væri mikill kvenlegur kraftur og svo fjallar hún mikið um sorg, djúpstæðan harm og missi og líka margar hliðar ástarinnar.“

Forlagið, sem er stærsta bókaútgáfan hér á landi, gefur ljóðabókina út. Ljóðabókin Bjarg sem Bjarney sendi frá sér árið 2013 var gefin út af Máli og menningu sem er hluti af Forlaginu. Hún kveðst afar heppin að hafa fengið bækur sínar gefnar út hjá Forlaginu. „Það er þó í raun mikilvægast að vera með góðan ritstjóra sem hefur trú á verkinu og vill vinna með manni í að þróa það áfram og gera handritið enn betra. Bækurnar fengu sitt hvorn ritstjórann og svo er ekkert öruggt í þessum heimi því þó að ein bók komi út þá getur næsta handrit alltaf fengið höfnun, maður veit aldrei í raun fyrr en á reynir með það. Þau hjá Forlaginu eru miklir fagmenn í orðsins list og ég er sérstaklega ánægð með kápuna sem var hönnuð fyrir bókina.“


Ljóðin koma á öllum stundum
Þessa dagana er Bjarney í námi og þar sem hún er ein með tvö börn þarf hún að skipuleggja sig vel. Hefðbundinn vinnudagur er þannig að hún er mætt við skrifborðið sitt í skólanum klukkan níu á morgnana og sækir soninn svo á frístundaheimili milli klukkan 16 og 17. Þá tekur við skemmtilegur tími með föndri, eldamennsku og fleiru. „Ég nota strætó til að fara í og úr skóla og þar reyni ég að slaka á og skoða mannlífið. Yfir daginn er ég að lesa og vinna að verkefninu mínu og svo þess á milli sæki ég námskeið.“ Þegar skólanum lýkur að vori og Bjarney fer að skrifa skáldskap eru dagarnir mjög misjafnir. Einu sinni var hún að skrifa skáldsögu og setti sér það markmið að fara ekki út úr húsi fyrr en hún væri búin að skrifa 2000 orð. „Það gat stundum tekið ansi mikið á að ná að klára og svíkja ekki sjálfan sig. Þá skipti ég deginum á milli frumskrifa og endurskrifa.“ Ljóðin koma í huga Bjarneyjar á öllum stundum og oft koma hugmyndir eða ljóðlínur á óheppilegum tíma eins og í strætó eða þegar hún er að skokka og pappír hvergi nálægt.

Sjálfri finnst Bjarney alltaf gaman að grípa í skáldsögur eftir íslenska eða erlenda höfunda. „Reyndar hefur það aukist eftir því sem árin færast yfir að ég grípi í sjálfshjálparbækur eða hlusti á fyrirlestra á netinu um andleg málefni. Yfirleitt fer þó allt of lítið fyrir lestrinum því ég festist í einhverju móki yfir fésbókinni og fréttamiðlum á kvöldin sem éta upp tímann minn, en ég veit að ég er ekki ein um það mók.“

Bjarney segir starf rithöfundarins stundum einmanalegt, hann standi einn gagnvart textanum og beri ábyrgð á honum og þurfi að standa með honum þegar aðrir byrja að lesa og krukka í hann. „Ef það koma dagar þar sem ég er ein úti í sveit að skrifa og ekki nokkur sála í kring þá þarf ég reglulega að taka upp símann og heyra í öðrum röddum en þeim sem óma í höfðinu. Einu sinni var ég ein á Eyrarbakka og þráði svo félagsskap að ég fór út í búð að kaupa bara eitthvað til að geta séð annað fólk og spjallað örstutt. Maður bæði þráir einveru og félagsskap en svo er líka alveg hægt að skrifa í kringum annað fólk og bestu ljóðin verða ekkert endilega til í einverunni.“
[email protected]


 


Bjarney sótti efnivið í nýju ljóðabókina bæði í sína eigin reynslu og annarra. Hún segir það skipta miklu máli að vera með góðan ritstjóra hjá bókaútgáfunni, ritstjóra sem hefur trú á verkinu og vill vinna með höfundinum að því að þróa handritið áfram og gera það enn betra.