Ljóðasúpa og ljóðaþvottur á árlegu Erlingskvöldi
Árleg menningardagskrá Bókasafns Reykjanesbæjar til heiðurs Erlingi Jónssyni, Erlingskvöld, verður haldið í dag, 27. mars, með nýju sniði. Boðið verður upp á Ljóðasúpu í samstarfi við Ráðhúskaffi og ljóðaþvottur fer fram. Þá verður Mánahestur Erlings kynntur, ásamt öðrum listaverkum hans.
Erlingur Jónsson er mikill ljóðaunnandi auk þess að vera velunnari Bókasafnsins. Til að þakka honum og áhugahópi um listasafn Erlings Jónssonar fyrir rausnarlegar gjafir í gegnum tíðina, hefur safnið helgað Erlingi dagskrá á árlegu menningarkvöldi.
Í ár verður athyglinni sérstaklega beint að ljóðum, íslenskum sem erlendum. Ljóðahópur Jakobs S. Jónssonar leikstjóra mun flytja ljóð af þeirri snilld sem leikhúsfólki er einu lagið og pólsk og íslensk ljóð munu hanga „til þerris“ á snúru. Ráðhúskaffi mun bjóða upp á súpu á viðráðanlegu verði sem áhugasamir geta gætt sér á undir ljóðalestri. Lesin verða ljóð Erlu, skáldanafn Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem svo skemmtilega vill til að er ljóðskáld Stóru upplestrarkeppninnar í ár, og sænska ljóðskáldsins Tomas Tranströmer í fallegri þýðingu Njarðar P. Njarðvík.
Dagskráin hefst kl. 18:00 í Ráðhúsi og eru allir velkomnir.