Ljóðaandrými innsetning í Bókasafni Kópavogs
Upplestur í Bókasafninu í Kópavogi í tilefni Ljóðsstafs Jóns úr Vör
Í ljóðaandrýminu sem er innsetning sem var gerð í tilefni Ljóðsstafs Jóns úr Vör er hægt að setjast niður í amstri dagsins, slaka á og njóta þess að hlusta á upptökur af nærandi ljóðaupplestri nokkurra skálda í notalegu umhverfi. Skáldin sem um ræðir eru þau Ragnheiður Lárusdóttir, Ólafur Sveinn Jóhannesson, Hildur Kristín Thorstensen, Gunnhildur Þórðardóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Eygló Jónsdóttir og Anton Helgi Jónsson. Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður og kennari tekur þátt og les upp úr nýjustu bók sinni Dóttir drápunnar – ljóð úr djúpinu sem er jafnframt sú sjötta. Bókin er gefin út af Sæmundi bókaútgáfu en ljóðabækur Gunnhildar fjalla oft um heimspekileg fyrirbæri en í verkum sínum túlkar hún vangaveltur sínar um lífið og tilveruna auk þess sem hnattræn hlýnun, femínismi og hringrásarhagkerfið hefur alltaf verið ofarlega á baugi.
Innsetningin er opin á opnunartíma Bókasafns Kópavogs virka daga 8-17 og laugardag 11-17.
Gunnhildur Þórðardóttir er með MA í liststjórnun (2006), tvíhliða BA nám sagnfræði (listasögu) og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge UK (2003) og viðbótardiplómanám í listkennslu bæði fyrir grunn - og framhaldsskóla frá Listaháskóla Íslands (2019). Hún hefur starfað við kennslu síðan 2014 og starfað í rúm tíu ár fyrir listasöfn bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Hún hefur verið virkur myndlistarmaður í tuttugu ár og unnið trúnaðarstörf fyrir Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og félagið Íslensk grafík.