Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lítur alltaf á sig sem Keflvíking
Stefán Ólafsson við nokkrar af myndum sínum. VF-mynd/pket
Fimmtudagur 1. september 2016 kl. 09:45

Lítur alltaf á sig sem Keflvíking

- Stefán Ólafsson heldur sýningu í Gömlu búð

Helstu viðfangsefni prófessorsins Stefáns Ólafssonar á fullorðinsárum hafa verið hagfræðin og þjóðfélagsfræðin. Hann segir þær þó frekar þurrar greinar og alvörugefnar. Því sé gott að eiga athvarf í einhverri listsköpun sem áhugamaður, bæði til að auðga tilveruna og víkka sjóndeildarhringinn. „Slíkt er mér mjög mikilvægt og vonandi get ég aukið þann þátt í framtíðinni,“ segir Stefán sem heldur sýningu á ljósmyndaverkum sínum í Gömlu búð við Duus húsin á Ljósanótt. Hann sýnir með skólasystur sinni, Fríðu Rögnvaldsdóttur. Sýningin ber yfirskriftina Fólk og landslag og að sögn Stefáns er Fríða meira með myndir af fólki á sýningunni en hann af náttúrunni og stundum af furðuverum í landslaginu. Í verkum sínum reynir hann sérstaklega að draga fram fegurð og dulúð í náttúrunni. „Skemmtilegast finnst mér þegar ljósmyndir nálgast málverkið að hluta. Stundum beiti ég myndvinnsluforritum til að auka slík áhrif. Þá er ég líka mjög hrifinn af myndrænum svipum, andlitum eða furðuverum, í klettum og hrauni, sem ýta oft undir dulúð í myndunum.“

Stefán ólst upp í Keflavík og bjó þar uns hans fór til háskólanáms í útlöndum. „Á uppvaxtarárunum var ég í góðum félagsskap og við lifðum mjög skapandi og fjöruga tíma í Keflavík Bítlaáranna. Þetta var tíminn sem færði okkur Hljóma og heilmikla grósku á svæðinu. Mjög skemmtilegur og örvandi tími mikilla breytinga. Það gerði það að verkum að þó að ég hafi búið lengi erlendis og síðan í Reykjavík þá lít ég enn alltaf á mig sem Keflvíking,“ segir hann. Vinahópur Stefáns hefur alla tíð haldið saman og kallar sig Átthagafélag Keflavíkur. Þá búa Oddný dóttir hans og fjölskylda í Keflavík og segir hann tengslin við gamla bæinn því enn mjög sterk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í listinni hefur Stefán leitast við að læra af öðrum, bæði af lestri bóka, sýningum og af internetinu og segir af nógu að taka. Mikilvægast sé þó að prófa sig áfram og gera tilraunir. „Ef áhuginn er nógu sterkur þá getur maður komist langt með því.“ Á skólaárunum í Keflavík stundaði hann ljósmyndun en lagði það síðan af en tók þráðinn upp aftur nokkrum árum síðar og ver nú stærstum hluta tómstunda sinna í ljósmyndaleiðangra og ýmsa tilraunastarfsemi með myndir. „Þegar ég var að alast upp í Keflavík þá var ég mikið í tónlist, til dæmis var ég í tónlistarnámi hjá Herbert Hriberschek í lúðrasveit drengja, þar sem ég var samhliða félaga mínum, tónlistarfrömuðinum Magnúsi Kjartanssyni. Síðan var ég í hljómsveitinni Skuggum með öðrum félögum mínum. Við spiluðum talsvert á skólaböllum og víðar í um þrjú ár á unglingsárunum.“

Á skólaárunum tók Stefán, ásamt nokkrum strákum þátt í ljósmyndasýningu í Keflavík og hjálpaði Heimir Stígsson ljósmyndari þeim við uppsetninguna. „Hann stækkaði myndirnar fyrir okkur, en þær voru allar í svart-hvítu. Hann sagði að við værum „listamenn”, hvort sem hann meinti það nú eða ekki.“ Sýning Stefáns nú um Ljósanótt er sú fyrsta síðan þá og kveðst hann mjög stoltur af því að fá að sýna með skólasystur sinni, myndlistarkonunni Fríðu Rögnvalds. Stefán verður í Gömlu búð yfir sýningardagana og vonast til að hitta sem flesta, ekki síst samferðafólk frá Keflavíkurárunum.

Bekkjarsystkin frá fyrri tíð, þau Stefán Ólafsson og Fríða Rögnvaldsdóttir sýna saman í Gömlu búð á Ljósanótt. VF-mynd/pket.