Litskrúðugir landnámshænuungar senn til sýnis
Landnámshænustofninn í Landnámsdýragarðinum við Víkingaheima á Fitjum mun stækka svo um munar á næstu dögum þegar nokkrir litskrúðugir landnámshænuungar verða tilbúnir til sýningar.
Ungarnir komu úr eggjum fyrir réttri viku síðan og þurfa nokkra daga í hlýjum húsakynnum áður en þeir fara út undir bert loft með öllum hinum hænunum í Landnámsdýragarðinum. Ungarnir komu í heiminn í útungunarvél og eru því móðurlausir og hafa því ekki verndarvæng móður og því hefur Gunnar Júlíus Helgason, umsjónarmaður dýragarðsins, ungana í hlýjunni í kaffiskúrnum sínum við dýragarðinn.
Gunnar Júlíus sagði í samtali við Víkurfréttir að gert sé ráð fyrir að ungarnir fari út á meðal annarra fugla í næstu viku. Landnámsdýragarðurinn er opinn alla daga frá kl. 10-17 en þar má sjá átta tegundir dýra, s.s. kindur, geitur og kálfa. Þá eru einnig hænur og dúfur eru nýjustu íbúar garðsins.
Myndarlegir landnámshænuungar í landnámsdýragarðinum við Víkingaheima. VF-myndir: Hilmar Bragi