Litríkir fyrirlesarar frá Síberíu
Fjölmennur fyrirlestur um menningu og siði í Síberíu var haldinn hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í hádeginu í dag. Ein fyrirlesaranna, Maria Shishigina, er búsett í Reykjanesbæ en hinar, þær Gera Shishigina, Tyara Jirkova og Lena Gogolava komu til Íslands frá Síberíu, meðal annars til að halda fyrirlestur á ráðstefnu um málefni norðurslóða sem fram fór í Hörpu síðustu viku.
Á fyrirlestrinum sagði Maria meðal annars frá vetrinum í Síberíu sem stendur í níu mánuði. Þegar hún flutti til Íslands fannst henni mun kaldara hér en í Síberíu þó svo að frostið sé mun meira þar, enda er ekki rok þar. Fyrirlesararnir klæddust skrautlegum búningum frá Síberíu sem ein þeirra hannaði, léku á hljóðfæri, sýndu handverk og buðu gestum upp á súpu.