Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Litlir skólar búa yfir miklum möguleikum
  • Litlir skólar búa yfir miklum möguleikum
Laugardagur 29. apríl 2017 kl. 06:00

Litlir skólar búa yfir miklum möguleikum

Von er á 53 erlendum nemendum til Grindavíkur 14. - 22. maí Nemendur lentu í hremmingum á flugvelli í Lettlandi. Eftirminnilegast að fara í „Zip-line”

Frá haustönn 2015 hefur hópur nemenda við Grunnskóla Grindavíkur tekið þátt í Nordplus verkefni sem ber heitið „Lítill skóli - margir möguleikar“ (Small schools - Big Opportunities). Nemendur hafa farið í heimsókn til Gislev í Danmörku, Hvalvík í Færeyjum og Skujene í Lettlandi. Í þessum heimsóknum hafa nemendur unnið verkefni og kynnst landi og þjóð og menningu landanna. Síðasta samveran verður í Grindavík 14. til 22. maí og er von á 53 nemendum sem munu njóta gestrisni Grindvíkinga. Það eru 12 nemendur sem hafa tekið þátt í Nordplus verkefninu í Grindavík.

Hremmingar á flugvelli
Samkvæmt vefnum grindavik.is hafa krakkarnir upplifað ýmis ævintýri á ferðum sínum og kynnst nokkrum mismunandi menningarheimum. Skólinn í Lettlandi er til að mynda staðsettur lengst út í sveit og aðstæður þar öllu frumstæðari en við eigum að venjast úr þægindum hér á Íslandi. Þar lenti hópurinn líka í hremmingum á flugvellinum þegar flugvél brotlenti á flugbrautinni rétt áður en hópurinn átti að fara í loftið. Þurftu þau því að gista á 4 stjörnu hóteli þar sem flugvellinum var lokað tímabundið, sumir sögðu það hafa verið hápunkt ferðarinnar. Þátttakendur voru sammála um að alls staðar hefðu þau upplifað mikla gestrisni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verkefni eins og þetta er ómetanleg reynsla
Þetta verkefni hefur verið mikill reynslubanki fyrir krakkana. Þau hafa lært að ferðast og lært af mistökum á flugvöllum. Einn úr hópnum fór í fyrsta skipti til útlanda þegar farið var til Danmerkur árið 2015. Aðspurð um hvað væri svo eftirminnilegast nefndu næstum allir fyrst „zip-line" sem þau fóru í í Lettlandi. Í zip-line rennir fólk sér á vír á milli staða. Kom sú upplifun mörgum í opna skjöldu en þau áttu ekki von á því að komast í slíka adrenalín skemmtun í Lettlandi. Þau upplifðu frá fyrstu hendi gríðarlegan menningarmun á ýmsum sviðum. Þar voru til dæmis ekki vatnsklósett á öllum heimilum og einhverjir nemendur fengu það hlutverk að teyma kú á milli bæja.

Markmiðið er að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun
Verkefnið er styrkt af Nordplus Junior sem er menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið menntaáætlunar er að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum. Verkefnið á að hjálpa nemendum að sjá að þeir geti sett markið hátt og haft trú á sér úti í hinum stóra heimi því að litlir skólar hafa marga möguleika.