Litla Hryllingsbúðin frumsýnd á föstudag
Söngleikurinn „Litla Hryllingsbúðin“ verður frumsýndur á föstudagskvöldið en það má með sanni segja að leikfélagið sé að ráðast í eitt stærsta verkefnið hingað til. Leikstjóri sýningarinnar er landsþekktur leikstjóri og leikari, Þorsteinn Bachmann, en þetta er í annað sinn sem hann stýrir verki hjá félaginu.
Söngstjóri sýningarinnar er Súluverðlaunahafinn og kórstjórinn Arnór Vilbergsson, Jón Bjarni Ísaksson er höfundur plöntunnar sem leikur stórt hlutverk í sýningunni og sviðshönnun er í höndum formanns félagsins, Davíðs Óskarssonar, en þess má geta að í fyrsta sinn í sögu Frumleikhússins er notast við snúningssvið. Valinn maður er í hverju hlutverki enda afar krefjandi leik- og sönghlutverk í þessari mögnuðu sýningu. Þá er ótalið allt það fólk sem vinnur ómetanlegt starf á bakvið tjöldin.
Nú í ár eru liðin 20 ár síðan Frumleikhúsið var formlega opnað eftir að húsnæðinu á Vesturbraut 17 var breytt úr tveggja hæða skemmtistað í fullkomið leikhús á aðeins níu mánuðum. Það hafði tekið allmörg ár að finna Leikfélagi Keflavíkur húsnæði undir starfsemi þess, æfingar, leikmuni, leikmyndir og sýningar ofl. Þetta voru því tímamót í sögu félagsins og því ber að fagna með afmælishátíð.
Ljósmyndari Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir á æfingu á verkinu í gærkvöldi.