Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lítil Freyja fæddist á Freyjuvöllum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 25. desember 2022 kl. 08:30

Lítil Freyja fæddist á Freyjuvöllum

Pabbinn tók á móti barninu í forstofunni með neyðarlínuna á öxlinni

Gunnhildur Gunnarsdóttir átti heldur óvenjulega fæðingu en hún eignaðist dóttur sína á forstofugólfinu á æskuheimilinu sínu. Gunnhildur og Gylfi Freyr, faðir barnsins, sýndu mikla hetjudáð þegar barnið kom í heiminn með flýti þann 11. júlí 2021 áður en viðbragðsaðilar mættu á staðinn. Stúlkan fékk síðar nafnið Freyja Mist en Gunnhildur segir það hafa verið „skrifað í skýin því hún hafi eiginlega valið sér þetta nafn.“ Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Gunnhildi sem rifjaði upp þennan örlagaríka dag í lífi fjölskyldunnar.

Laugardaginn 10. júlí 2021 fóru þau Gunnhildur og Gylfi í brúðkaup hjá bróður hans en þá voru tveir dagar í settan dag hjá Gunnhildi. „Ég var þarna í hælaskóm og kjól og var nær allan tímann að hlaupa á eftir Gunnari Elís, eldra barninu okkar. Þegar klukkan var orðin átta að kvöldi til var ég orðin virkilega þreytt en reyndi að draga það að fara heim því þetta var stór dagur í lífi bróður Gylfa,“ segir Gunnhildur en hún átti bókaðan tíma í nálastungur á HSS klukkan níu sama kvöld til að ná að slaka á og sofa betur um nóttina. „Þarna klukkan átta fór ég að verða virkilega þreytt og pikkaði í Gylfa og spurði hvort við gætum farið heim, sem við gerðum.“

Gunnhildur og Gylfi, ásamt syni þeirra Gunnari Elís í brúðkaupinu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnhildur fór í nálastungur klukkutíma seinna og byrjaði þá að fá verki, hún vissi að það þýddi að barnið kæmi í heiminn á næstu klukkutímum eða í það minnsta á næsta sólarhringnum. Það sem hún vissi hins vegar ekki var að ótrúleg atburðarás átti eftir að eiga sér stað. „Ég svaf ekkert alla nóttina fyrir verkjum. Þrátt fyrir það vakti ég ekki Gylfa því ég vildi að hann myndi ná að hvíla sig vel. Það gerði ég af fenginni reynslu en þegar strákurinn okkar kom í heiminn tók það svo langan tíma svo ég vildi að hann myndi vera úthvíldur til að tækla þessa fæðingu vel,“ segir Gunnhildur og bætir við: „Það er ótrúlegt hvernig lífið er, sem betur fer leyfði ég honum að sofa svo hann var vel í stakk búinn að takast á við það sem átti eftir að gerast. Ég var alla nóttina að berjast við þessa verki og reyna að liggja í rúminu. Ég var á þessum tíma búin að vera í meðgöngujóga hjá Möggu Knúts og þar lærði ég að anda mig í gegnum verkina – eitthvað sem ég kunni ekki þegar ég fæddi strákinn okkar. Kemur í ljós að þegar maður andar sig í gegnum verkina leyfir maður öllu að opnast og líkamanum að gera það sem hann þarf að gera. Ég var staðráðin í að ná að anda mig í gegnum þetta. Ég var uppi í rúmi með jógatónlist í eyrunum og andaði dúpt þar til klukkan var orðin sjö um morguninn. Þá var ég alveg að drepast úr verkjum og hringdi í tengdamömmu og bað hana um að sækja Gunnar Elís, sem hún gerði. Við vorum svo komin upp á HSS um níuleytið á sunnudagsmorgninum.“

Anda inn og anda út

Gunnhildur hitti ljósmóðir á fæðingardeildinni sem mældi útvíkkunina hjá henni. „Þú ert bara komin í þrjá í útvíkkun, það er langt í land,“ sagði ljósmóðirin eftir mælinguna. „Ég átti í raun erfitt með að labba út um dyrnar hjá ljósmóðurinni vegna hríða og hún sagðist sjá hversu verkjuð ég væri og mælti með því að ég myndi taka því rólega, fara heim í bað og koma aftur um hádegi.“

Þau Gunnhildur og Gylfi voru ekki með bað heima hjá sér á þessum tíma svo það kom sér vel að foreldrar Gunnhildar voru í útilegu og heima hjá þeim var baðkar. Þangað var förinni heitið, á æskuheimili Gunnhildar á Freyjuvöllum. „Ég lét renna í baðið og kom mér fyrir í því en fannst það frekar óþægilegt svo ég sat mestallan tímann í hægindastólnum hans pabba, á handklæðinu einu, að anda mig í gegnum verkina – anda inn og anda út. Ég er mjög þrautseig og var staðráðin í að þrauka til hádegis en þetta var rosalegt, ég var svo verkjuð en ég hélt áfram að anda mig í gegnum verkina. Þegar mér leið virkilega illa reyndi ég að rölta upp í rúm og svo aftur til baka í hægindastólinn og svona gekk þetta áfram þar til ég labbaði inn á baðherbergið. Þá var klukkan að verða ellefu og enn var klukkutími í að við áttum að mæta niður á fæðingardeild. Skyndilega leið mér mjög illa og fann að eitthvað væri að gerast og sagði við Gylfa að við yrðum að fara niður á sjúkrahús á stundinni. Hann byrjaði þá að taka til eftir okkur og ég sagði bara; nei, NÚNA!“

„Viltu segja henni að barnið sé að koma!“

Gylfi hjálpaði Gunnhildi að klæða sig í föt og fara út í bíl en hún gat einfaldlega ekki sest í bílinn. „Ég hreinlega náði því ekki, það var eitthvað að gerast. Ég sagði þá við Gylfa að hann yrði að hringja á sjúkrabíl, barnið væri að koma. Hann opnaði hurðina að húsinu aftur og næsta sem ég man er að hann hringdi á neyðarlínuna og ég fór rétt inn um dyrnar og stóð þar með krosslagða fætur til að koma í veg fyrir að barnið myndi koma þá og þegar. Hann var við hliðina á mér í símanum og setti á „speaker“, konan hjá neyðarlínunni var svo róleg og byrjaði að spyrja spurninga eins og hvað ég væri langt gengin og ég var þarna öskrandi: „Viltu segja henni að barnið sé að koma!“ Í sömu andrá fann ég að það væri ómögulegt fyrir mig að reyna að klemma saman fæturna. Þá missti ég vatnið, tók niður buxurnar og fór niður á fjórar fætur í forstofunni, með buxurnar á hælunum.“ Gunnhildur var ekki deyfð eða á neinu verkjastillandi og lýsir hún því hvernig öndunaræfingarnar hjálpuðu henni í átökunum. „Gylfi var allan tímann í símanum á meðan ég var að eiga barnið. Pabbinn tók aleinn á móti barninu með neyðarlínuna á öxlinni og sagði mér að þetta væri stelpa en við vissum það ekki fyrirfram. Þetta var ótrúlegt augnablik, bara við þrjú. Ég man ekki eftir að hafa upplifað einhverja hræðslu, ég treysti Gylfa ótrúlega vel. Hann var rólegur, ekkert stressaður og mikið að hvetja mig áfram,“ segir Gunnhildur. Fjórar mínútur, svo stuttur var tíminn sem leið frá því að Gylfi reif upp tólið þar til stúlkan kom í heiminn. „Hann var nýbúinn að taka hana í hendurnar þegar að hurðin opnaðist og inn komu fjórir sjúkraflutningamenn, tvær löggur og ljósmóðir. Þau voru mjög hissa að barnið væri fætt og athuguðu hvort allt væri ekki alveg örugglega eins og það ætti að vera.“

Eftir þessa hröðu atburðarás var ferðinni svo heitið á fæðingardeildina með sjúkraflutningamönnunum þar sem fjölskyldan fékk góða umönnun. Fyrsta verkefnið eftir fæðinguna var þó að segja fjölskyldumeðlimum frá kraftaverkinu. „Það var frekar fyndið að við hugsuðum strax að við yrðum að láta foreldra mína vita sem fyrst því það er mjög góð nágrannavarsla á Freyjuvöllunum og fólk er frekar náið þar. Það komu náttúrlega tveir sjúkrabílar og löggubíll á staðinn. Við hugsuðum að við yrðum að láta vita svo það færu ekki einhverjar sögusagnir af stað.“

Skrifað í skýin

Eftir að þau höfðu sagt foreldrum Gunnhildar alla sólarsöguna spyrja þau hvort það liggi þá ekki beinast við að stúlkan myndi heita Freyja. Það sama gerðist þegar þau töluðu við fólkið hans Gylfa, þau spurðu hvort hún ætti ekki að heita Freyja. „Við vorum búin að ákveða allt annað nafn fyrir hana, það er nafn sem við ákváðum fyrir fyrra barnið okkar þegar við héldum að það yrði stelpa. Þegar það kom svo í ljós að það var strákur ákváðum við að ef seinna barnið yrði stelpa þá myndi hún heita því nafni – en svo eftir þessi símtöl litum við á hvort annað og sögðum bæði: „Er þetta kannski bara Freyja?“ og þá sagði pabbi hennar: „Freyja Mist.“ Þá var það eiginlega ákveðið þarna á fæðingardeildinni. Okkur fannst það passa vel við hana, pabbi hennar heitir líka Gylfi Freyr og hann tekur einn á móti henni og hún fæðist á Freyjuvöllum – æskuheimilinu mínu. Þannig að þetta var eiginlega skrifað í skýin, hún valdi sér þetta nafn,“ segir Gunnhildur.

Og svo varð úr, Freyja Mist var skírð í húsinu sem hún fæddist, á Freyjuvöllum og kom það fáum á óvart þegar nafnið var tilkynnt. „Það voru nokkrir búnir að giska á að hún myndi heita Freyja, þegar við tilkynntum svo nafnið hennar hátt og skýrt fóru margir að hlæja,“ segir Gunnhildur.

Ótrúleg tilviljun, eða örlög?

Sumir myndu telja það vera magnað að faðirinn heitir Gylfi Freyr og að hún hafi fæðst og verið skírð á Freyjuvöllum en þar með er sagan ekki öll. Hálfu ári eftir að Freyja Mist kom í heiminn komst Gunnhildur að því að önnur af lögreglukonunum sem fóru í útkallið á Freyjuvellina 11. júlí heitir Freyja Mist. „Nokkrum mánuðum seinna var ég að labba með strákinn okkar á leikskólann og hitti eina mömmu sem er lögreglukona. Ég fór að spjalla við hana og hún spyr hvort ég viti hvað lögreglukonan heiti sem kom í útkallið þegar Freyja Mist okkar fæddist og ég hafði ekki hugmynd. Þá sagði hún mér að hún heiti Freyja Mist. Mér finnst þetta svo magnað og ótrúlegt – að við höfum ákveðið að hún myndi heita Freyja út af því að hún fæddist á Freyjuvöllunum og Gylfi Freyr tók á móti henni og síðan heitir lögreglukonan sem fór í útkallið nákvæmlega sama nafni, Freyja Mist.“

Aðspurð hvort Freyjurnar hafi hist og hvort lögreglukonan viti af nafngiftinni segir Gunnhildur: „Þær eru búnar að hittast, fyrir tilviljun. Árni Freyr (leggur áherslu á nafnið Freyr), vinur minn, er lögreglumaður og hann og Freyja Mist voru að keyra inn Freyjuvellina (leggur aftur áherslu á Freyju) þegar ég var úti að labba með Freyju litlu í vagninum. Þau stoppuðu til að spjalla smá við okkur og ég sagði henni frá þessu. Þá var hún víst búin að heyra þetta en það var gaman að þær skyldu hafa hist. Henni fannst þetta líka magnað og mjög skemmtilegt.“

Hún er bara algjör Freyja

„Okkur þykir vænt um þessa sögu og fyrst að allt fór vel þá finnst okkur þetta æðisleg minning,“ segir Gunnhildur. Freyja Mist kom með hraði í heiminn og nú einu og hálfu ári síðar er hún „óttalaus og öflug“ að sögn móðurinnar. „Hún er ótrúlega dugleg og sterkur karakter. Hún er frekar róleg en hendir sér í allt. Hún á kröftugan, stóran bróður en hún gefur ekkert eftir – sem passar svo vel við nafnið hennar. Það er gaman að segja frá því að merking nafnanna Freyja og Gunnhildur er svolítið sambærileg; sterk kona. Þetta nafn á ótrúlega vel við hana, hún er bara algjör Freyja.“