Litið um öxl: Guðjónína Sæmundsdóttir
Áramótin eru skemmtilegur tími og um leið ágætis tímapunktur bæði til að líta um öxl og skoða árið sem er að líða í aldanna skaut og einnig til að líta fram á veginn og spá í spilin.
Víkurfréttir höfðu samband við nokkra valinkunna Suðurnesjamenn og –konur og spurðu hvað væri minnisttæðast frá árinu 2007.
Guðjónína Sæmundsdóttir – Forstöðumaður Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum
Hjá mér persónulega finnst mér sumarfríið eftirminnilegast. Það var frábært að fara með fjölskylduna í Legoland, ferðast um landið og ekki síst þegar við óðum Fjaðrárgljúfur. Það var alveg geggjað þrátt fyrir kuldann í byrjun og að hafa sagt nokkur vel valin orð við aðra fjölskyldumeðlimi sem „drógu“ mig í þessa för.
Af fréttum frá Suðurnesjum finnst mér bera hæst að Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fékk Starfsmenntaverðlaunin og einnig sú mikla íbúabyggð sem hefur skapast á fyrrum varnarsvæði. Frá erlendu grundu finnst mér alltaf jafn sorglegt að það sem maður helst man eftir eru stríð og morð og á það jafnt við um þetta ár sem önnur. Af innlendum vettvangi er breytingin á borgarstjórn Reykjavíkur og atburðirnir í kringum það eftirminnilegast.