Litadýrð á Fjölskyldudögum í Vogum
Íbúar leggja mikinn metnað í húsa-og garðskreytingar
Um helgina fer fram Fjölskylduhátíð í Vogunum og í tilefni hátíðarinnar hafa margir íbúar skreytt húsin sín ansi glæsilega. Hvert hverfi er með sinn lit sem og eru húsin og garðarnir skreyttir í viðkomandi lit.
Ýmsir viðburðir hafa farið fram eins og golfmót, varðeldur í fjörunni, kassabílarallý, bocciamót, söngkeppni og fleira. Kvölddagskráin er að hefjast um þessar mundir en að venju er glæsileg tónlistardagskrá. Fram koma Klassart, Regína Ósk, Gylfi Ægisson og Magni. Kvölddagskránni lýkur síðan með flugeldasýningu sem hefst kl. 23.00.
Dagskrá Fjölskyldudaga má sjá hér, en nóg er um að vera á sunnudeginum.
Meðfylgjandi myndir eru af skemmtilegum skreytingum sem Vogabúar hafa augljóslega lagt mikla vinnu í.