Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Listrænar mæðgur sameina krafta sína
Vigdís Viggósdóttir sýnir ljósmyndir og dóttir hennar, Arís Eva Vilhelmsdóttir sýnir teikningar. VF-mynd/dagnyhulda
Föstudagur 17. mars 2017 kl. 11:50

Listrænar mæðgur sameina krafta sína

- Hluti ágóða af sölu teikninga til styrktar Unicef

Mikið hefur verið um að vera í Grindavík undanfarna daga en þar stendur Menningarvikan sem hæst. Mæðgurnar Arís Eva Vilhelmsdóttir teiknari og Vigdís Heiðrún Viggósdóttir ljósmyndari halda saman sýningu í tilefni af Menningarvikunni. Þar sýnir Arís tvær raðir teikninga og Vigdís ljósmyndaverkið „Leyst úr læðingi“ ásamt fleiri ljósmyndum.

Arís hefur ekki sýnt verk sín opinberlega áður ef frá er talin lítil sýning þegar hún stundaði fornám við Myndlistarskóla Reykjavíkur. „Það er gaman að gera þetta með mömmu núna. Hún hefur sýnt svo oft áður,“ segir Arís. Hún hefur teiknað frá því hún man eftir sér og í gegnum tíðina fengist við ýmis konar listsköpun. Hún er að mestu sjálflærð en lærði myndlist við FS og hefur lokið fornámi við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Hún lærði þrívíddar tölvuleikjahönnun í eitt ár í Hollandi og var myndlist ein af undirstöðum þess náms. Hún hefur einnig lokið einni önn í handritagerð og leikstjórn frá Kvikmyndaskóla Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og áður sagði sýnir Arís tvær raðir teikninga í Menningarvikunni í Grindavík. Annars vegar myndir af börnum og rennur ágóði af sölu frumrita þeirra til Unicef. „Þær myndir teiknaði ég þegar ég var ólétt. Þá hugsaði ég mikið til kvenna og barna á flótta vegna stríðs. Mig langar alltaf til að hjálpa en get ekki farið hinu megin á hnöttinn. Ég geri því það sem ég get,“ segir hún. Til að byrja með ætlar Arís að safna fyrir vatnsdælu og svo bólusetningum og helstu nauðsynjum fyrir fólk á stríðshrjáðum svæðum. Hin sería Arísar kallast „Krossgötur.“ Hugmyndina að henni fékk Arís þegar hún var í fæðingarorlofi. „Þá vissi ég ekki hvað myndi taka við eftir orlofið, hvort ég ætti að fara í skóla eða að vinna eða hvað. Það má segja að þessi hugmynd hafi komið til mín þá.“

Vigdís fékk myndavél að gjöf á fimmtugsafmælinu og hóf stuttu síðar nám við Ljósmyndaskólann. Þaðan útskrifaðist hún árið 2014 og hefur haldið fjölda sýninga síðan. Ljósmyndaröðin „Leyst úr læðingi“ fjallar um vorið, bæði um árstíðina vor og vorið innra með hverjum og einum. „Þá á ég við tímabilin þegar fólk fær góðar hugmyndir og leyfir þeim að flæða óhindrað eins og vatnið að vori til,“ segir Vigdís.

Vigdís hafði fengist við myndlist sem unglingur en alveg lagt listsköpun á hilluna þar til hún fékk myndavélina góðu að gjöf. Samspil manns og náttúru er meginstef verka hennar, til dæmis hvernig líðan okkar endurspeglast í náttúrunni. Vigdís segir náttúruna vera lærimeistara manneskjunnar og að hjá náttúrunni finnist alltaf svör.

Sýningin stendur til sunnudagsins 19. mars í Framsóknarhúsinu í Grindavík við Víkurbraut 27. Nánari upplýsingar um verk Arísar má fá á Facebook-síðunni arisstudioo. Verk Vigdísar má skoða á vefnum viddy.is. Hún er einnig með sýningu í Skotinu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þar er myndaröðin Heimasætan/Sveitapiltsins draumur sýnd og stendur sú sýning yfir til 21. mars næstkomandi.
[email protected]