Listgjörningur fer á flakk
Á síðasta ári var sýningin „Heima er þar sem hjartað slær“ haldin í Bókasafni Reykjanesbæjar, sýningin vakti mikla athygli- og verkefnið hefur nú undið upp á sig.
Listamennirnir sem stóðu að vinnustofunni og sýningunni héldu samskonar vinnustofur í Phoenixville í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.
Anna María Cornette, sem stýrir barna- og unglingadeild Bókasafns Reykjanesbæjar ásamt því að vera verkefnastjóri fjölmenningar, er annar þeirra tveggja listamanna sem vann að þessu verkefni í bókasafninu og fór hún út til Bandaríkjanna í byrjun febrúar. Hinn myndlistarmaðurinn er Gillian Pokalo, bandarísk myndlistarkona sem er búsett í Pennsylvania.
Anna María er með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands ásamt því að vera með MA í menningarmiðlun og Diploma í safnafræði frá Háskóla Íslands. Hún og Gillian kynntust þegar Gillian var á ferðalagi um Ísland og hafa þær náð að tengjast mjög vel. Afrakstur samstarfs þeirra við verkefnið Heima er þar sem hjarta slær hefur heldur betur undið upp á sig og það er ljóst að verkefnið muni skjóta upp kollinum á fleiri stöðum í náinni framtíð.
Allt önnur stemmning í Bandaríkjunum
Það var hafist handa strax við komuna til Bandaríkjanna að undirbúa vinnustofu og sýninguna sem átti að halda þar. Aðeins nokkrir dagar voru til stefnu áður en þriggja daga vinnustofa skyldi hefjast og ærið verk framundan.
Það var talsvert önnur upplifun fyrir þær Önnu Maríu og Gillian að vinna með aðfluttum konum í Bandaríkjunum en hér heima. Konurnar, sem flestar komu frá Mið- og Suður-Ameríku, reyndust hlédrægari og í raun óttaslegnar. Líkast til vegna aukinnar hörku í stefnu bandarískra yfirvalda gagnvart innflytjendum. Sumar konurnar vildu hvorki koma fram undir nafni né leyfa myndatökur af sér. Meira að segja voru vinnustofurnar og sýningin voru mjög takmarkað auglýstar af ótta við einhvers konar hatursumræði eða -glæpi.
Það var mjög gleðilegt að fylgjast með konunum við vinnu á vinnustofunni, það tók þessar hlédrægu konur ekki langan tíma til að sökkva sér í sína listsköpun og eftir stutta stund var gleðin og hláturinn tekinn að heyrst yfir vinnunni.
Glæsileg opnun
Sýningin opnaði á föstudegi og fóru viðtökur langt fram úr væntingum, í raun varð þetta stærsta opnun hjá galleríinu frá upphafi. Verk kvennanna vöktu mikla athygli en þau voru jafn fjölbreytt og þau voru mörg, verkin voru unnin með silkiþrykktækni og tengdust minningum þeirra um heima. Það var mjög fallegt að fylgjast með þeim listakonum sem mættu í opnunina, stoltið og gleðin skein af þeim og aðstandendum þeirra – svo glöddust þær svo innilega fyrir hönd hverrar annarar.
Það er ljóst að þessi „farandssýning“ kemur til með að ferðast víðar á næstu misserum en þegar hefur þeim Gillian og Önnu Maríu borist óskir um að halda samskonar vinnustofur í öðrum galleríum og söfnum hérlendis og erlendis. Sýningin í Phoenixville hefur vakið athygli og nú er búið að lengja þann tíma sem hún verður í gangi.