Listaverk á 3360 kr. í Bókasafni Reykjanesbæjar
Sýningin List sem gjaldmiðill - ARTMONEY NORD er í Bókasafni Reykjanesbæjar
Sýningin List sem gjaldmiðill - ARTMONEY NORD var opnuð í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar á fimmtudegi Ljósanætur í Reykjanesbæ. Artmoney Nord er myndlistarverkefni þar sem listamenn af Norðurlöndunum skapa sinn eigin gjaldmiðil.
ARTMONEY NORD er hópur norrænna listamanna sem deila í þessu verkefni sínum persónulegu hugmyndum um hvernig við metum list að verðleikum og hvernig þær hugmyndir eru hreyfanlegar og mynda með sér nýjar tengingar. Artmoney er val um „gjaldmiðil“ þar sem hægt er að velta fyrir sér hvað er sanngjarnt menningar- og efnahagslegt verðgildi í listum. Allir listamennirnir gera verkin í sömu stærð 12x18 sm. og eru þau öll til sölu, hvert verk kostar sem samsvarar 200 dönskum krónum eða 3360 kr.
Verkefnið samanstendur af sýningum, vinnustofum listamanna ásamt formlegum og óformlegum fyrirlestrum. Verkefnið hófst á bókasafninu í Árhúsum, Dokk1 sumarið 2017 á hátíðarviku Árhúsa og hefur verkefnið einnig farið fram í TRYK2 í listaviku Bornholm, Norrænu stofnuninni í Álandseyjum og Rikhardinkatu Bókasafninu í Helsinki.
Nú er komið að Íslandi þar sem verkefnið stendur út október í Bókasafni Reykjanesbæjar.
https://artmoneynord.wordpress.com/
Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun sýningarinnar.