Listasafn RNB: Ný sýning í undirbúningi
Nú er unnið að undirbúningi næstu sýningar í Listasafni Reykjanesbæjar sem tekur í fyrsta sinn þátt í Listahátíð í Reykjavík. Sýningin verður opnuð sunnudaginn 18. maí.
Sýningin ber heitið Þríviður og er samsýning þriggja íslenskra myndlistarmanna, þeirra Hannesar Lárussonar, Guðjóns Ketilssonar og Helga Hjaltalíns. Allir eiga það sameiginlegt að nota trjávið í miklum mæli við gerð verka sinna.
Á sýningunni verður verkum listamannanna - lágmyndum, gólfverkum og uppistandandi skúlptúrum - stillt upp þannig að þau kallist á og kveiki neista hvert af öðru. Um leið verður grennslast fyrir um hlutverk trjáviðar í íslenskri myndlist og tengslin við útskurðarlist fortíðar. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.
Mynd: Eitt verka Hannesar undirbúið í morgun með þátttöku nokkurra Suðurnesjamanna á öllum aldri. VF-mynd: elg.