Listamenn sýna í Bling Bling
Mikið er um dýrðir framundan hjá versluninni Bling Bling Hafnargötu 26.
Síðan 3. mars hefur verið sýning hjá sannkölluðum listamæðgum, þeim glerlistakonunni
Ingu Bjarna og myndlistarkonunni Írisi Rós Þrastardóttur.
Inga er með Glervinnustofu í Hafnarfirði, en Íris Rós býr í Keflavík og hefur einu sinni áður
haldið sýningu, en sú sýning var haldin í Landsbankanum á Ljósanótt árið 2004.
Íris Rós er lærður útlitshönnuður frá Dupont skreytingarskólanum í Kaupmannahöfn. Eftir það fór hún að senda frá sér hin ýmsu listaverk. Hún þróar með sér hugmyndir og lætur þær verða að veruleika. Nú er nýr innblástur í verkum hennar og eru það svokallaðar “háramyndir” sem sýningargestir geta borið augum á listasýningunni. Þetta eru gróf kúluverk þar sem hrossahár spila stórt hlutverk. Íris málar með blandaðri tækni, og notar lím, frauð og steypu til að skapa listaverkin. Inga Bjarna er með glervinnustofu í Hafnarfirði og vinna þær mægður mikið saman. Sýningin hefur fengið góðar undirtektir og einróma lof sýningargesta.
Eins og áður segir er margt skemmtilegt framundan hjá versluninni Bling Bling og er augljóst mál að verslunareigandinn Björk mun leggja sitt af mörkunum til að auðga menningarlíf hér á Suðurnesjum. Í apríl mun listakonan Dalla taka við af þeim mægðgum og sýna listaverkin sín í Bling Bling og í maí mun svo listakonan Bagga halda sýningu. Það má enginn láta þetta fram hjá sér fara og um að gera að skoða listasýninguna í Bling Bling við Hafnargötu 26.
Íris og Björk verslunareigandi