Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Listamenn spyrja spurninga um bullið
Kristinn leitar alltaf aftur á heimaslóðir. Hann vinnur núna verkefni þar sem hann kannar þögnina á Suðurnesjum.
Laugardagur 13. september 2014 kl. 12:00

Listamenn spyrja spurninga um bullið

Keflvíkingurinn Kristinn Guðmundsson í viðtali

Kristinn Guðmundsson er ungur myndlistarmaður frá Keflavík. Hann hefur undanfarin ár haldið til í Evrópu en þar hefur hann búið í Danmörku, Hollandi og Belgíu. Kristinn var nýkominn af dansæfingu þegar hann hitti blaðamann á kaffihúsi í Reykjanesbæ. Kristinn pantaði sér kaffi en vildi sérstaklega að það kæmi fram í viðtalinu að hann hefði ekki pantað sér latte. Listamaðurinn hefur fengist við ýmis verkefni á ferli sínum en núna upp á síðkastið hefur hann m.a. komið fram í danssýningu, tekið upp tónlistarmyndband fyrir vini sína í Valdimar og leitað af þögninni.

„Ég byrjaði hérna í FS á sínum tíma og var að skíta á mig þar,“ segir Kristinn um upphafið á námsferlinum sem spannar nú orðið átta ár. „Námsstefnan í venjulegum framhaldsskóla hentaði mér ekki. Þessi mikli lestur og þessar endurtakningar.“ Eftir áhugaleysið í FS lá leiðin í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem boltinn fór að rúlla hjá Kristni. „Þar fann ég eitthvað sem ég hafði áhuga á,“ segir Kristinn sem stundaði nám við listabraut í skólanum. Eftir stutt stopp í Hafnarfirði lá leiðin til Kaupmannahafnar en þar nam Kristinn ljósmyndun, sem var fyrsta ástin í listageiranum ef svo mætti taka til orða. „Ég fór nánast á hverjum degi og tók ljósmyndir. Það hefur nú leitt mig frá myndavélinni yfir í dans,“ segir Kristinn og brosir. Hann var ekki alveg viss um hvort hann hyggðist leggja ljósmyndunina fyrir sig en lauk þó grunnnámi. „Ég var í raun hvattur til þess að hætta í ljósmyndun. Einn kennarinn sagði mér að ég ætti ekki að vera í ljósmyndun, ég ætti að vera í myndlist.“ Þannig endaði Kristinn í myndlistarskólanum Gerrit Rietveld Academy í Amsterdam. Fjögurra ára nám tók við en Kristinn segist hafa fundið sína fjöl þar og flogið í gegnum námið.

Ísland togar alltaf í mig

Kristinn er hvergi nærri hættur í námi en hann er hefja skólavist í Arnhem í Hollandi á næstunni. Kristinn hefur átt farsælt samstarf með Peter Sattler listamanni en þeir tveir munu sækja skólann saman sem dúólistamenn. Kristinn er reyndar búsettur í Belgíu en hann mun ferðast yfir til Hollands og sækja skólann þar, enda hentar það vel þar sem um sérstakar námslotur er að ræða. Kristinn hefur verið erlendis síðastliðin átta ár en hann segist kunna vel við flakkið. „Þetta er ágætt. Ísland togar alltaf í mig. Það er mjög góð myndlistarsena á Íslandi og ég myndi halda að ég gæti plummað mig ágætlega í henni. Það er þó eitthvað sem heldur mér úti. Það er draumurinn að vera á báðum stöðum, í Evrópu einhvers staðar og svo hér heima.“
Eftir að hafa verið námsmaður meira og minna í sex ár erlendis er ekki hjá því komist að spyrja af því hvernig listamaðurinn lifi í dýrum stórborgum Evrópu. „Ég hef verið að vinna með námi. Nú síðast var ég t.d. kokkur á tónleikastað í Brussel. Maður þarf að púsla þessu einhvern veginn. Svo hef ég fengið dansverkefnin bæði hér heima og í Sviss. Það hefur reynst mér vel. Annars lifi ég skuggalega ódýrt. Ég á ekki bíl og ég er ekki að borga af húsi,“ en Kristinn segir listamannalífið snýst að miklu leyti um að gera umsóknir um styrki og vinna að hugmyndum. Kristinn segir það mikla vinnu að sækja um styrki víðsvegar en þannig geti listamenn eins og hann og Peter stundað sína vinnu. „Þetta er ekki mjög „commercial“ list sem við gerum og oft á tíðum ill seljanleg, þannig verðum við að treysta á styrkina.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn og Peter félagi.

Sífellt að spyrja spurninga

Hvað er það sem myndlistamenn eru að fást við dags daglega? „Þetta snýst um viðfangefnið hverju sinni. Að vissu leyti er þetta bull sem við erum að fást við, að mati einhverra. Við sem listamenn megum hins vegar ekki gleyma því að spyrja spurninga um bullið. Ef ég nefni fótboltann sem dæmi, þá er sífellt verið að spyrja spurninga. Á að notast við marklínutækni? Þurfum við fleiri dómara? Þannig þróast leikurinn áfram. Ég tel að samfélagsleg ábyrgð listamannsins felist í því að ýta okkur lengra. Mikið er spurt um fyrir hvern listin er. Fyrir mér er ég að búa til list fyrir sjálfan mig, til að þróa mig sem betri þjóðfélagsþegn og vonandi að ég nái að taka fleiri með mér. Ef þér finnst hún góð og hún snertir þig, þá er það plús fyrir mér.“

Alltaf verið athyglissjúkur

Hvernig varstu annars á þínum yngri árum, varstu mikið að hafa þig frammi? „Ég hef alltaf verið ágætlega athyglissjúkur og ég held að vinir mínir verði ánægðir að heyra mig viðurkenna það. Ég var oft að reyna að vera fyndinn og svona og er enn að reyna vera fyndinn, en aldrei beint að „performa,“ segir Kristinn en hann segir þó körfuboltaiðkun sína hafa verið eins konar útrás fyrir sýniþörfina. „Ég tel mér trú um það að ég geti nýtt mér körfuboltann í dansinum og listinni, í dansinum get ég nýtt mér rýmiskenndina. Í körfuboltanum fékk ég að vera leiðtogi. Ég var langt frá því að vera bestur en var leiðtogi að ég tel, ég held að leiðtogahæfileikarnir hjálpi mjög mikið í myndlistinni.“

„Ég get alveg viðurkennt það að ímyndunaraflið mitt er ekki upp á marga fiska, sem er ekkert sérstaklega gott ef maður er myndlistarmaður“

Leitin að þögninni

Til stendur að halda sýningu þar sem þeir Kristinn og Peter Sattler félagi hans í listinni, kanna og túlka þögnina. „Það er vonandi að það snerti einhvern. Ipadinn með 3G sambandinu þarf ekki alltaf að koma með í útileguna og það er allt í lagi að slökkva á símanum stundum. Ég er alls ekki að predika, enda geri ég þessa hluti sjálfur. Þetta er sjálfsskoðun líka.“ Þeir félagar velta vöngum sínum yfir hvað sé þögn. Hvenær er hljóð þögn og í hvaða mismunandi aðstæðum er þögnin raunveruleg þögn. Listamennirnir reyna að upplifa þögnina á Suðurnesjum og miðla því til áhorfenda með hljóðum hljóðum og hljóðum myndum.
„Ég sé þetta þannig að við, fólkið, séum algerlega búin að gleyma þögninni. Ég fer út að labba með tónlist í eyrunum. Þegar ég er í tölvunni þá er ég með alla glugga opna og allt í gangi. Maður er bara orðinn lúbarinn af upplýsingum. Það er svo mikið áreiti. Þegar upplýsingarnar eru svona miklar þá ósjálfrátt minnkar gildi þeirra. Af hverju er ekki bara þögnin mikilvæg, af hverju erum við búin að gleyma henni? Nú þarf stanslaust einhver að vera að skemmta þér. Þannig minnkar ímyndunaraflið fyrir vikið. Ég get alveg viðurkennt það að ímyndunaraflið mitt er ekki upp á marga fiska, sem er ekkert sérstaklega gott ef maður er myndlistarmaður,“ segir Kristinn og hlær. Hann segist velja sér verkefni sem yfirleitt taki langan tíma. Þannig geti hann tekið sér góðan tíma í að fá næstu hugmynd.