Listamannsleiðsögn og síðasta sýningarhelgi í Listasafni Reykjanesbæjar
Nú fer hver að verða síðastur til að skoða myndlistarsýningu Huldu Vilhjálmsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar. Á sýningunni gefur að líta málverk , teikningar og skúlptúra sem flest geyma litlar sögur sem gaman er að velta fyrir sér og enn skemmtilegra að heyra en Hulda verður einmitt með leiðsögn fyrir almenning á sumardaginn fyrsta kl. 15 í beinu framhaldi af opnunarhátíð Listar án landamæra. Hulda er af yngri kynslóð listamanna sem vakið hefur athygli fyrir kraftmikla og óhefta tjáningu og ekki síst tilfinningalegan heiðarleika. Vinnuaðferðir hennar eru fremur óheflaðar en umfjöllunarefnin valin af einstakri næmni. Hún fjallar m.a. um ýmis afbrigði ástarinnar, samskipti við vini, börn, Guð og margt fleira á sinn eigin sérstaka hátt. Látið ekki Huldu fram hjá ykkur fara, hún er perla.
Síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 26. apríl. Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum. Þar er opið virka daga frá kl. 11.00 – 17.00 og um helgar frá 13.00 – 17.00. Aðgangur er ókeypis.