Listamannaleiðsögn í Listasal DUUShúsa
Laugardaginn 21. febrúar kl. 13.30 mun Eyjólfur Einarsson listmálari verða með leiðsögn fyrir almenning um sýninguna í Listasal Duushúsa. Eyjólfur ákvað ungur að helga sig myndlistinni og sótti m.a. námskeið hjá Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara strax á unglingsárum. Síðar lá leiðin í Myndlista- og handíðaskólann og loks til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í konunglegu listaakademíunni.
Sýningin ber heitið Söknuður og samanstendur af 14 olíuverkum. Í sýningarskrá sem gefin var út í tilefni sýningarinnar segir Aðalsteinn Ingólfsson: „Af málverkum Eyjólfs stafa söknuður og tregi: eftirsjá eftir sakleysi bernskunnar þegar hringekjur voru lífsins mesta undur og róluvellir helsta leiðin til stjarnanna, eftirsjá eftir barnatrúnni á „undursamleikans eigin þrotlausa brunn“, eftirsjá eftir þeim gildum sem ekki hafa „drukknað í æði múgsins og glaumsins“.”
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum er opinn virka daga frá kl. 11.00 til kl. 17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Sýningin stendur til 8. mars og aðgangur er ókeypis.
Mynd: Frá sýningunni í Listasal Duushúsa