Listamaður sem lætur gott af sér leiða
-Ethorio gefur Myllubakkaskóla og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar verk eftir sig
Listamaðurinn Ethorio, sem heitir réttu nafni Eyþór Eyjólfsson, gaf Myllubakkaskóla veggjamynd á dögunum. Með myndinni vill hann hvetja nemendurna áfram í skólanum en með persónunum á veggjamyndinni fylgja ýmis skilaboð, til dæmis þau að vera alltaf maður sjálfur og að mennt sé máttur.
„Ég hugsaði að það væri gaman að skilja eitthvað jákvætt eftir mig hér í bæ,“ segir Ethorio. Hann reyndi að mála persónur sem krakkarnir könnuðust við og tengja verkið við menntun til að vonandi drífa krakkana áfram í náminu. „Ég vildi hafa þetta jákvætt og hvetjandi, en á sama tíma litríkt og skemmtilegt, eins og lífið á að vera,“ segir hann.
Þetta er þó ekki eina verkið sem Ethorio gefur þessa dagana því Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fær einnig verk frá honum. „Það verk var lokaverkefnið mitt á næst síðustu önninni minni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2013, en það er verkið „Rúni Júl“. Ég vildi þakka Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir mig. Þetta verk er mitt besta, hingað til.“
Leið Ethorio liggur svo til Bretlands eftir tæplega mánuð þar sem hann mun hefja nám á öðru ári í Fine-Art deildinni í listaskólanum AUB. Art University of Bournemouth. Hann mun dvelja í Bretlandi í tvö ár og klárar þá BA-gráðuna.
Fyrir áhugasama verður Ethorio með listasýningu á Ljósanótt, áður en hann heldur á vit ævintýranna í Bretlandi en sú sýning verður að Hafnargötu 20.