Listakonur út úr skápnum!
Listatorg í Sandgerðisbæ opnar allnýstárlega sýningu nú á föstudaginn 12.júní með þeim stöllum Elínbjörtu Halldórsdóttur og Ásdísi Fjólu Gunnarsdóttur, sem jafnframt eru góðar mágkonur.
Þær eru báðar mjög skapandi alþýðulistakonur, Elínbjört málar myndir með sykri, akrýl og sparsli, ennfremur þæfir hún íslenska ull og býr til handtöskur og nælur úr ullinni. Elínbjört bakar einnig dýrindis hnallþórur.
Dísa, sem jafnframt er hundasnyrtir, smíðar fallega skartgripi úr silfri. Þeim er margt fleira til lista lagt og ætla að opna leynda skápa á fjölbreyttri sýningu, sem stendur til sunnudagsins 21.júní.
Opið er alla daga í Listatorgi frá klukkan 13-17.