Listahátíð barna sett í Reykjanesbæ
Listasafn Reykjanesbæjar hefur í samvinnu við 6 leikskóla í bænum unnið að sérstakri Listahátíð barna sem haldin verður í Duushúsum næstu daga í tilefni Degi barnsins sem haldinn er hátíðlegur 25. maí á hverju ári. Hátíðin var sett formlega í morgun með því að bæjarstjóri opnaði listsýningu í Bíósal Duushúsa þar sem sjá má myndlistarverk eftir elstu árganga Heiðarsels, Holts, Garðasels, Tjarnasels, Vesturbergs og Hjallatúns og eru þessi verk unnin sérstaklega fyrir þetta tækifæri og ber sýningin heitið Börn.
Á sýningunni má einnig lesa um væntingar barnanna til framtíðarinnar. Mánudag, þriðjudag og miðvikudag verða svo skipulagðar uppákomur fyrir og eftir hádegi með leik og söng í umsjá ofantaldra leikskóla og er öllum heimilt að koma og skemmta sér á meðan húsrúm leyfir. Uppákomurnar verða kl. 10.30 og 13.30 og fara fram í Gryfjunni í Duushúsum. Myndlistarsýningin í Bíósal er opin alla daga frá kl. 11.00-17.00 og stendur til 26. maí.