Listahátíð barna lýkur á sunnudag
Verðlaun veitt fyrir örmyndasamkeppni og innsend póstkort
Í dag voru veitt verðlaun fyrir þátttöku í örmyndasamkeppni sem haldin var í tilefni Listahátíðar barna. Á annan tug mynda voru sendar inn og voru þær unnar undir yfirskrift hátíðarinnar „Hreinn heimur – betri heimur“ og „Reykjanesbær á 60 sekúndum.“ Aðstandendur hátíðarinnar eru sammála um að myndbandagerð sé mjög skemmtileg viðbót við þau listform sem þegar eru til staðar á hátíðinni sem eru myndlist, leiklist, tónlist og dans og verður stefnan sett á að endurtaka örmyndasamkeppni á næsta ári. Sérstök dómnefnd valdi 5 bestu myndirnar og fengu allir höfundarnir bíómiða, popp og kók í verðlaun auk þess sem þrjár bestu myndirnar að mati dómnefndar voru einnig sýndar í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Þá voru nöfn tveggja barna dregin úr stórum potti skessupóstkorta sem skilað var inn á fjölskyldudegi barnahátíðarinnar og voru þau heppnu Júlíus Elí 7 ára og Alexandra Ósk Jakobsdóttir 8 ára.
Listsýningum skólanna í Duus safnahúsum lýkur á sunnudag og eru allir sem enn hafa ekki skoðað þessar frábæru sýningar hvattir til að gera það. Ókeypis aðgangur er í safnahúsin á meðan á sýningunum stendur og opið er frá kl. 12-17 alla helgina.
Aron Gauti og Sæþór Elí taka við verðlaunum fyrir mynd í 1.-3. sæti.
Ísak Már, Almar Elí, Helgi Matthías og Jóhann Ívar lentu í 4.-5. sæti.
Júlíus Elí og Alexandra Ósk voru dregin úr skessupottinum.