Listagarður barna
– Fetað til framtíðar í fjörunni
Í leikskólanum Holti er lögð áhersla á listræna tjáningu og er myndsköpun hverskonar í hávegum höfð. Árið 2009 kom hugmynd frá móður barns í leikskólanum að setja upp stígvél í fjöruborðinu og skreyta þau verkum eftir börnin í leikskólanum. Bæjaryfirvöld tóku vel í hugmyndina og fundu garðinum fallegan stað niður við sjó. Þar sem garðurinn liggur við göngustíginn í Innri Njarðvík hafa verkin glatt bæjarbúa sem leið eiga hjá og annarra sem gera sér ferð víða að í garðinn.
Áhersla hefur verið lögð á að verkin sem prýða stígvélagarðinn séu gerð úr opnum efnivið. Nú á dögunum bar hann þess augljós merki að veður eru gjarnan válynd hér á Suðurnesjum og þurfti að endurnýja hann allan. Aftur stukku starfsmenn bæjarins til og komu til aðstoðar samhliða því að börnin bjuggu til nýtt stígvélaskraut.
Því efndi leikskólinn til endurvígsluhátíðar þar sem tvö elstu börnin í leikskólanum, Friðrik Lukas Rúnarsson og Íris Mihn Grétarsdóttir, héldu á borða sem þær Vala Björk Svansdóttir, áðurnefnd móðir, og Kristín Helgadóttir, fyrrverandi leikskólastjóri, klipptu á.
„Það er einlæg von okkar að garðurinn standi til frambúðar og við munum gera okkar besta til að halda honum við. Við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð og kíkja á garðinn góða,“ segir í frétt frá leikskólanum Holti.